Biskup gróðursetti tré á Sólheimum

Biskup Íslands heimsótti Sólheima fimmtudaginn 15. júní. Heimsóknin hófst á samveru og morgunstund með starfsfólki og íbúum. Að henni lokinni kynnti framkvæmdastjóri Sólheima, Guðmundur Ármann Pétursson, sögu og starfsemi Sólheima fyrir biskupi í máli og myndum.

Biskup heilsaði upp á íbúa og starfsfólk og fékk leiðsögn um staðinn. Eftir hádegisverð var samvera í umsjá séra Sveins Alfreðssonar í Sólheimakirkju, þar sem sungið var, leikið á hljóðfæri og lesið. Biskup flutti ávarp og gróðursetti tré við kirkjuna að athöfn lokinni.

Myndir frá heimsókninni má nálgast hér: https://www.flickr.com/photos/kirkjan/albums/72157685027628806

Biskupsstofa meðal hástökkvara ársins

sfrSamkvæmt árlegri starfsánægjukönnun SFR (Stofnun ársins) hafa miklar breytingar orðið á vinnustaðnum okkar á aðeins fáeinum mánuðum. Biskupsstofa hækkar í könnuninni um 46 sæti milli ára og er því meðal hástökkvara ársins! Aðeins Lögreglan í Vestmannaeyjum hækkaði meira eða um 50 sæti, sem er frábær árangur.

Óneitanlega gladdi niðurstaðan mig mikið. Starfsfólk Biskupsstofu hefur oft haft vindinn í fangið, en ekki látið það trufla sín góðu störf. Það hefur þvert á móti þjappað sér saman og skapað góðan vinnustað sem við trúum að hafi mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.

Jákvæðar breytingar hafa orðið á nær öllum starfsánægjuþáttum sem könnunin nær til. Mesta breytingin hefur orðið á starfsandanum og ánægju og stolti af vinnustaðnum. Eini ánægjuþátturinn sem breytist nær ekkert milli ára er upplifun starfsfólks af ímynd Biskupsstofu. Sú niðurstaða kemur reyndar ekki á óvart, því erfið innri mál kirkjunnar hafa oft fengið mikla athygli og skoðanamótandi aðilar verið gagnrýnir á okkar störf, skipulag kirkjumála og trúarbrögð almennt. Við kveinkum okkur ekki undan því, enda eru opin og heiðarleg skoðanaskipti nauðsynleg í okkar góða samfélagi.

Mín skoðun er afdráttarlaust sú, að við eigum að hlusta á gagnrýnisraddir og leggja okkur fram við að bæta okkur.  Við getum gert betur, greint betur frá skoðunum okkar og leyst innri mál með friðsömum hætti. Við eigum að halda áfram að þjóna  fólki í gleði þess og sorg, óháð skoðunum þess, gildum, uppruna o.s.frv., ekki vegna trúarskoðana þess heldur okkar eigin.   SFR á hrós skilið fyrir að standa að þessari árlegu starfsánægjukönnun meðal starfsfólks í almannaþjónustu. Hún gefur góðar vísbendingar um stöðu mála og er leiðarvísir um hvar skóinn kreppir.

Traust, von og gleði

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega hátíð.

Kristur er upprisinn. Það er boðskapur þessarar mestu hátíðar kristinna manna. Hvað með það? spyrja einhverjir. Hefur það einhverja merkingu að Kristur reist upp frá dauðum? Aðrir telja að upprisan sé uppspuni frá rótum svo ótrúleg sé frásagan. Kirkjan hefur á öllum tímum tekið undir þennan boðskap og játað, Kristur er sannarlega upprisinn. Einstaklingar hafa fundið fyrir nærveru hins upprisna Drottins eins og lærisveinarnir forðum eða Emmausfararnir og aðrir sem guðspjöllin greina frá.

Upprisa Krists er undirstaða trúar okkar og grundvöllur kirkju okkar. Í nýliðinni viku minntumst við atburðanna sem voru undanfari upprisu Jesú. Minntumst þess þegar Jesús reið inn í Jerúsalem og var hylltur sem konungur. Þá vildu allir þekkja hann og fagna honum. Svo kom skírdagur þegar síðustu kvöldmáltíðarinnar var minnst og föstudagurinn langi fylgdi í kjölfarið. Þá stóð mannfjöldi við krossinn en ekki til að hylla eða fagna. Þetta er þekkt á öllum tímum. Þegar vel gengur vilja allir vera með. Allir vilja vera í sigurliðinu. Það vill enginn vera tapari.

Atburðir dymbilviku og páska heyra saman. Andstæður atburða föstudagsins langa og páskadags eru miklar. Þannig eru líka dagar lífs okkar. Góðu dagarnir kalla fram þakklæti. Á slæmum dögum lifum við í von um betri tíð.

Á páskum fögnum við sigri lífsins. Dauðinn hafði ekki síðasta orðið. Ofbeldið sigraði ekki. Hæðnisglósur viðstaddra misstu marks. Niðurlægingin bugaði ekki. Kristinn upprisu boðskapur segir okkur að allt verði nýtt. Að alltaf sé von í öllum aðstæðum. Að við fáum hlutdeild í upprisu Krists, því hann hefur tekið okkur að sér, í lífi og í dauða. Ég lifi og þér munuð lifa, sagði hann við hrygga vini sína. Og þessi boðskapur huggar og veitir von þeim er missir.

Ungur maður spurði mig um daginn, hver er tilgangur lífsins? Þessi spurning brennur á vörum nútímamannsins sem og fyrri kynslóða. Því miður sjá ekki allir tilgang með lífi sínu, hafa ekki löngun til að lifa og finna ekki gleði í lífi sínu. Upprisuboðskapur páskanna minnir okkur á að tími endurnýjunar og endurmats er kominn. Við þurfum á þeim boðskap að halda í heimi sem er fullur af hatri og illsku, ofbeldi og yfirgangi. Daglega heyrum við í fréttum að það er ráðist gegn lífinu. Styrjaldir geysa, kristnir menn eru ofsóttir og deyddir, samkynhneigt fólk er ofsótt og deytt, menningarverðmæti eyðilögð, fólk er niðurlægt og pyntað. Þetta er ekki tilgangur lífsins. Tilgangur lífsins snýst um kærleikann, að elska Guð og náungann eins og sjálfan sig. Að varðveita sköpunina og stuðla að réttlæti og samkennd manna í millum. Páskaboðskapurinn færir okkur von um að hægt sé að finna leiðir til mannsæmandi lífs fyrir alla og að allir finni tilgang með lífi sínu og í lífi sínu. Páskaboðskapurinn gefur okkur kraft og kjark til að vinna gegn hinu illa í öllum þess myndum. Hann sýnir okkur að böl og pína hefur ekki síðasta orðið heldur lífið og gleðin sem því fylgir.

Fyrir 9 árum varð efnahagslegt hrun hér á landi. Reyndar var fleira sem hrundi en efnahagurinn. Eða hrundi efnahagurinn vegna þess að annars konar hrun hafði orðið? Hvernig sem á því stóð er ljóst að mjög margir hér á landi urðu fyrir miklu tjóni. Eins má finna að þjóðin varð fyrir áfalli. Við tók tími þar sem sorgarferlið var fetað með tilheyrandi dofa, reiði og svo uppbyggingu. En eitt hefur gengið illa að finna aftur. Enn virðist vera langt í land með að traustið komi aftur. Traustið, sem er svo mikilvægt í mannlegum samskiptum og alls staðar þar sem fólk kemur nærri. Traust til grundvallarstofnana samfélagsins hefur ekki komið aftur. Enn virðist vera langt í land með að endurheimta það. Það er stundum haft á orði að við getum bara breytt sjálfum okkur en ekki öðrum. Að ef við viljum breyta þá verðum við að byrja á sjálfum okkur. Stofnanir þjóðfélagsins verða að sýna að þær séu traustsins verðar. Það á við um allar stofnanir, fjármálastofnanir, heilbrigðisstofnanir, ríkisstofnanir, kirkjurnar og aðrar þær stofnanir sem þjóna fólkinu í landinu. Fjölmiðlarnir eru þar ekki undanskildir.

Undanfarið hafa mörg börn fermst hér á landi. Það er undarleg sú framganga sem birst hefur í fjölmiðlum og á ljósvakamiðlum að gera lítið úr börnunum og ákvörðun þeirra að vilja staðfesta skírn sína. Þau eru jafnvel þráspurð hvort þau séu að fermast vegna gjafanna. Mætti þá ekki alveg eins spyrja afmælisbörn hvort þau væru að halda upp á afmælið vegna gjafanna, eða brúðhjónin hvort þau séu að staðfesta heit sín vegna gjafanna? Kirkjunnar þjónar vinna með fermingarbörnunum í anda upprisunnar. Að þau feti hamingjuveginn og finni tilgang með lífi sínu. Fermingarbörnin fá misvísandi skilaboð þegar kirkjan vill styðja þau til að byggja líf sitt á traustum grunni en aðrir gera lítið úr og sá efa í hjörtun ungu.

Það var efi í huga þeirra sem stóðu undir krossi Jesú á föstudaginn langa. Höfðu þau látið blekkjast? Gat það verið að leiðtoginn þeirra hafi ekki verið allur þar sem hann var séður? Þeim mun meiri hefur gleðin verið á þriðja degi þegar meistarinn birtist lærisveinum sínum og vitjaði þeirra. Það er ekki öll von úti þó í móti blási. Vonlausar aðstæður geta breyst í sigurstund. Það segja páskarnir okkur. Með traust og von að leiðarljósi eru leiðir greiðar.

Þúsundir Íslendinga hafa fengið tækifæri til að hefja nýtt líf. Í mörgum kirkjum og kirkjudeildum hefur fólk fengið tækifæri til að fara í andlegt ferðalag með hjálp 12 sporanna sem einnig eru þekkt hjá AA samtökunum og fleiri samtökum. Andlega ferðalagið hefst á því að læra að treysta. Að treysta Guði.

Í ár er þess minnst að 500 ár eru frá upphafi siðbótarinnar. Lúter sem kirkja okkar er kennd við glímdi við spurninguna um tilgang lífsins og nærveru Guðs. Hann fann ekki sátt í sál sinni og fann ekki gleði í trúnni. Fannst eins og Guð væri andstæðingur sinn. Hann bað og hann las í Biblíunni. Þar fann hann svarið sem gaf honum sálarfriðinn. „Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists“ las hann í bréfi Páls postula til Rómverja. Honum varð það ljóst að maðurinn réttlætir ekki sjálfan sig, heldur er það Guð sem réttlætir manninn.

Þetta er á svipuðum nótum og fólk finnur sem fetar veginn í hinu andlega ferðalagi. Það finnur að það er hægt að sleppa tökunum og fela Guði áhyggjur, kvíða, reiði og annað það sem plagar. Það er hægt að létta byrðarnar með því að deila þeim með Guði.
Að treysta er lykilhugtakið, hjá andlega leitandi einstaklingi sem og hjá samfélagi sem vill fara í endurmat og endurnýjun. Að trúa er að treysta. Að treysta Guði fyrir lífi sínu.

Konurnar sem komu til grafarinnar árla hinn fyrsta dag vikunnar treystu því sem þeim var sagt við gröfina. Jafnvel áður en þær sáu gröfina tóma treystu þær þeim orðum sem við þær var sagt: „Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann“. „Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin“ . Þær treystu og þær hlýddu.

Þetta er boðskapur páskann. Enn er hann fluttur um víða veröld. Héðan förum við með blessun Guðs og boðskapinn um upprisuna. Boðskapinn um að Jesús er með okkur alla daga, leiðir okkur veginn fram, gengur á undan okkur í heimi sem er ekki alltaf vinveittur okkur, í heimi sem stundum vekur ótta en líka hamingju. Í heimi sem getur verið myrkri hulinn, en eygir birtu páskasólarinnar í austri. Fögnum og verum glöð, því Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á páskadagsmorgni (útvarpað á Rás eitt).