Straumhvörf í kirkjum Norðurlanda varðandi aðild, höfuðbiskupar funda

Norrænn höfuðbiskupafundur í Þrándheimi var haldinn í s.l. viku.  Margt er sameiginlegt með lúterskum kirkjum Íslands, Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands og svipuð viðfangsefni.  Fækkað hefur í kirkjunum.

Í dönsku þjóðkirkjunni hefur skírnum fækkað.  Aðeins 61,6 % fæddra barna eru skírð.  25 þúsund manns yfirgáfu kirkjuna á s.l. ári.  Nú eru 79,5 % Dana í þjóðkirkjunni.  Hlutfallið er lægst í Kaupmannahöfn, 57%.  Pétur biskup sagði að það væri ekki bara neikvætt að fólk segði sig úr kirkjunni.  Það jákvæða er að þau sem eftir eru vilja vera í kirkjunni.

30 þúsund yfirgáfu norsku kirkjuna síðari helming síðast liðins árs.  Ungt fólk er þar í meirihluta.  Fólk fer ekki í aðrar kirkjudeildir.  Komið hefur í ljós að fólkið er ekki á móti kirkjunni en það hefur ekki áhuga á að tilheyra henni lengur.  Tæplega 73% norðmanna tilheyra norsku þjóðkirkjunni.

Milli 18 og 19 þúsund manns yfirgáfu sænsku kirkjuna á síðast liðnu ári.  Nú tilheyra kirkjunni milli 61 og 62 %.  Þau sem yfirgáfu kirkjuna eru annars vegar ungir karlmenn og hins vegar fólk á aldrinum 65-69 ára.  Áður sagði fólk sig úr kirkjunni til að spara, því allir verða að greiða sóknargjald sem tilheyra kirkjunni.  Nú segja flestir sig úr kirkjunni vegna gagnrýni á hana.

Finnski biskupinn sagði ekki frá úrsögnum úr sinni kirkju, enda eru önnur mál á dagskrá þar.  Umræðan í finnsku kirkjunni nú um stundir, hefur farið fram í hinum kirkjunum, en það er umræðan um hjónaband samkynhneigðra.  Nýlega samþykkti finnska þingið að fólk af sama kyni mætti ganga í hjónaband.  Kirkjan hefur ekki enn samþykkt hjónaband samkynhneigðra þó margir prestar samþykki það, m.a. Kari biskup.

Tölfræði íslensku þjóðkirkjunnar er ekki í nógu góðu lagi.  Við getum ekki lengur stólað á tölur frá Þjóðskrá en reglulega birtast tölur þaðan í fjölmiðlum.  Reyndar eru það oftast tölur um úrsagnir en ekki um inngöngu.  Auk þess er trúfélagsskráning ekki fullkomin.  Það er því verk að vinna í okkar íslensku þjóðkirkju.  Nú tilheyra þjóðkirkjunni rúmlega 70% þjóðarinnar.

Kirkjuhúsið áfram í miðju mannlífsins

Á fundi Kirkjuráðs á föstudaginn var ákveðið að hafna öllum kauptilboðum í húseignina að Laugavegi 31, þar sem Biskupsstofa og tengd starfsemi hefur verið til húsa í áratugi. Húsið var auglýst til sölu og talsverð umræða skapaðist í kjölfarið, enda er húsið áberandi og á eftirsóttum stað í miðbæ Reykjavíkur. Tilboðin uppfylltu ekki þær væntingar sem lagt var upp með. Sjálf fagna ég því að niðurstaða sé fengin og að Kirkjuhúsið muni standa áfram við Laugaveg, sýnilegt og aðgengilegt öllum. Ég fagna því að veraldleg mál af þessum toga séu leidd til lykta, enda er mikilvægt að þau taki ekki of mikinn tíma frá kærleiksstarfi kirkjunnar. Það er nefnilega svo, að kirkjan er ekki hús heldur lifandi samfélag fólks sem trúir á Jesú og hið góða í heiminum.

Um tillögu Viðskiptaráðs að ríkið selji kirkjur

Fram hefur komið að Viðskiptaráð telji rétt að ríkissjóður losi um eignarhald sitt á þeim 22 kirkjum sem eru í eigu ríkisins. Af þeim kirkjum sem eru á lista Viðskiptaráðs eru a.m.k. sex í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Í ýmsum tilvikum getur einfaldlega verið um að ræða að leiðrétta þurfi skráningu í fasteignaskrá og færa eignarhald á viðkomandi sókn.  Að öðru leyti skal ekkert sagt um það hvort þessi listi er réttur eða ekki en ljóst er að flestar þær kirkjur, sem taldar eru upp á listanum, hafa verið notaðar og reknar á vegum sóknanna sem þær eru í.  Ég sé ekki að söfnuðirnir eigi að kaupa hús sem þeir hafa viðhaldið og rekið um árabil, kannski frá upphafi.  Eignarhaldið breytir engu um notkun, viðhald og rekstur. Hér sýnist mér hugsunin frekar vera sem um „tiltekt“ sé að ræða þannig að eignarhald sé hjá þeim sem nota húsið og sjá um rekstur þess og viðhald.

Kirkjur hafa áður verið seldar svo að sala á þeim er engin nýlunda. Sumar hafa verið afhelgaðar og seldar eins og t.d. gamla kirkjan á Eskifirði og Stöðvarfirði og á fleiri stöðum. Vert er að vekja athygli á þeim mikla menningararfi sem kirkjur landsins eru.  Söfnuðir landsins, með sóknarnefndirnar í forystu fyrir sameiginlegum málum þeirra, viðhalda þessum menningararfi, standa vörð um hann og sjá um viðhald og rekstur. Þeim sem koma í kirkjurnar hefur fjölgað mjög. Sú aukning tekur bæði til þeirra sem sækja athafnir og til ferðamanna. Svo dæmi sé tekið þá gátu komið á minni tíð í Bolungarvík um 600 manns í Hólskirkju á einum degi. Það er gleðiefni en um leið umhugsunarefni.

Sóknarnefndarfólk sem telur hundruð vítt og breytt um landið er þá sett í þá stöðu að finna leiðir til greiðslu kostnaðar af þessari auknu umferð og fleiru sem viðkemur kirkjuhúsinu án aðkomu ríkisvaldsins sem heldur utan um málaflokkinn menningararf. Tillaga Viðskiptaráðs á sölu kirknanna sem sýnist eins og áður segir vera „tiltekt“ frekar en eiginleg sala gefur tilefni til að huga einnig að því hvernig varðveislu menningararfsins verður fyrir komið í framtíðinni.