Krafa prestsvígðra kvenna er sanngjörn og eðlileg

Fulltrúar prestvígðra kvenna afhentu í morgun yfirstjórn þjóðkirkjunnar áskorun, þar sem krafist er breytinga á vinnuumhverfi og -aðstæðum kvenna í kirkjunni. Líkt og konur í öðrum starfsstéttum hafa þær orðið fyrir kynbundinni áreitni, mismunun og jafnvel kynferðisofbeldi í starfi. Ásamt undirritaðri tóku forseti kirkjuþings og framkvæmdastjóri kirkjuráðs við áskoruninni, en henni fylgdu 64 frásagnir í anda #MeToo.

Ég er afar þakklát öllum þeim sem stigið hafa fram, sagt frá sinni reynslu og haldið á lofti kröfunni um heilbrigt og öruggt vinnuumhverfi, sanngirni og virðingu í samskiptum milli fólks. Það er mikilvægt að enginn loki augunum gagnvart þeirri samfélagslegu meinsemd sem kynbundið áreiti og ofbeldi sannarlega er, að því er virðist í öllum kimum samfélagsins

Frásagnir prestvígðra kvenna komu mér ekki á óvart. Ég hef sjálf starfað innan kirkjunnar í nær 40 ár og bæði upplifað og séð ýmislegt á þeim tíma. Hitt er svo öllum ljóst, að kirkjan hefur um langa hríð reynt að vinna úr áreitnis- og ofbeldismálum þar sem sumt hefur tekist vel en annað síður.

Fyrir 20 árum setti kirkjan sér fyrst vinnureglur um meðferð áreitnismála sem upp kynnu að koma. Í tengslum við þær er nú verið að taka upp verklag í viðkvæmum aðstæðum, þar sem m.a. er gert ráð fyrir því að starfsfólk sæki sérstakt námskeið og fái þekkingu sína vottaða hjá utanaðkomandi sérfræðingum. Þá fer þjóðkirkjan fram á það við starfsfólk og umsækjendur um starf, að þeir heimili kirkjunni að afla upplýsinga úr sakaskrá og þar sem kannað verði hvort þeir hafi gerst brotlegir við barnaverndarlög, nokkra flokka almennra hegningarlaga og lög um ávana- og fíkniefni.

Starfsreglur kirkjunnar fela í sér heildstæða nálgun á málaflokkinn, þar sem mál eru sett í skýran fyrirfram skilgreindan farveg. Markmiðið er að tryggja rétta málsmeðferð hverju sinni og styðja við þolendur, t.d. hvetja þá til að kæra mál til lögreglu séu þau þess eðlis og veita hverjum og einum faglegan stuðning, og eftir atvikum einnig gerendum.  Í sumum málum er kveðið á um skilyrðislausa tilkynningarskyldu til yfirvalda, frávísun úr starfi – ýmist tímabundna á meðan rannsókn stendur yfir eða varanlega – svo dæmi séu nefnd. Reglurnar hafa reynst vel en þarfnast stöðugrar rýni, ekki síst hvað varðar forvarnir og fræðslu.

Ég tek hjartanlega undir þá sanngjörnu og eðlilegu kröfu sem prestvígðar konur hafa sett fram. Ég mun leggja mig alla fram við að bæta starfsumhverfi kvenna og samskiptin milli fólks í kirkjusamfélaginu.

Til hamingju með viðurkenninguna kæra Vilborg

Vilborg OddsdóttirÁnægjulegt var að sjá að Vilborg Oddsdóttir félagsráðgjafi og umsjónarmaður innanlandsstarfs Hjálparstarfs kirkjunnar var ein þeirra sem var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar á nýjársdag. Hún var sæmd orðunni fyrir framlag sitt til samhjálpar og baráttu gegn fátækt í samfélaginu. Undir hennar stjórn hefur innanlandsaðstoð Hjálparstarfsins fetað nýjar brautir. Fólk stendur ekki lengur í biðröðum eftir mat í poka heldur fær fólk inneignarkort sem hægt er að nota víða og félagslega ráðgjöf. Vilborg hefur í starfi sínu hjá Hjálparstarfinu lagt áherslu á að vald efla fólk og styðja fólk í baráttunni við fátækt. Til hamingju með viðurkenninguna kæra Vilborg og þið öll sem sæmd voruð orðunni fyrir framlag ykkar til bætts samfélags.

Samtakamáttur er lykilorð í umhverfis- og jafnréttismálum

Umhverfismál, náttúruvernd og mikilvægi þess að heimsbyggðin sameinist í baráttunni gegn loftlagsbreytingum var megininntakið í nýárspredikun Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, í Dómkirkjunni í Reykjavík í morgun. Þá gerði hún jafnréttismál og kynbundið ofbeldi að umræðuefni.

Biskup sagði sköpunarverkið eiga undir högg að sækja vegna ójafnvægis, misnotkunar og ofnotkunar í heiminum. Nú þurfi þjóðarleiðtogar um allan heim að standa saman og fá almenning í lið með sér. Parísarsamkomulagið verði að halda og það sé einkennilegt að nokkrum detti í hug að hundsa það. Ólíkar vísinda- og fræðagreinar þurfi að leggjast á eitt og kirkjan geti lagt sitt af mörkum til að hafa áhrif á viðhorf almennings til náttúrunnar.

„Umhverfisvandinn sem blasir við er margþættur. Vandinn snertir jörðina og allt sem á henni er.  Hann snertir allt lífið á jörðinni, lífsviðhorf, lífsstíl og neyslu og það hefur komið í ljós að afleiðingar loftslagsbreytinganna bitna hvað harðast á fátækustu íbúum jarðar. Umhverfisvandinn snertir því baráttuna fyrir félagslegu réttlæti í heiminum. Þær siðferðislegu spurningar sem vakna í ljósi umhverfisvandans beinast því ekki aðeins að hlutverki okkar gagnvart náttúrunni heldur einnig að stöðu okkar og ábyrgð gagnvart náunganum.”

Biskup fjallaði einnig um jafnréttismál og rifjaði upp skrif Páls postula frá fyrstu öld, þar sem talað er um að allir menn séu jafnir, karlar og konur, þó ekki væru allir eins. Þá hafi Jesús Kristur sýnt jafnrétti í verki, líkt og Biblían greini frá. Það sé umhugsunarvert, að enn í dag skuli þurfa að berjast á hverjum degi fyrir þeim sjálfsögðu réttindum sem jafnrétti er.

“Kynbundið ofbeldi á sér stað eins og margar sögur kvenna bera með sér, sem opinberaðar hafa verið í MeToo byltingunni. Það er ekki ofsögum sagt að flestar konur hafi fundið samsömun með þeim reynslusögum sem þar hafa birst. Ég og fleiri konur innan kirkjunnar getum vitnað um kynbundið ofbeldi sem við höfum ekki þorað að orða fyrr en nú þegar við vitum að margar konur hafa sömu sögu að segja. Við þurfum að horfast í augu við raunveruleikann á hvaða sviði sem er. Loftslagsbreytingarnar eru staðreynd. Kynbundið ofbeldi er staðreynd.”

Prédikun biskups í heild sinni má nálgast hér.