Frelsi eða fjötrar

Undanfarna mánuði hefur mátt lesa fréttir af fíkniefnaneyslu ungmenna og jafnvel dauða þeirra af hennar völdum.  Foreldrar, fjölskyldur og vinir hafa syrgt og kallað eftir umræðu um málið og aðgerðum til að leysa ástvinina og þau öll sem orðið hafa eitrinu að bráð undan ástandinu.

Einnig hefur mátt lesa frásagnir af uppdópuðu fólki að fara inn á heimili fólks til að ná í verðmæti, væntanlega m.a. til að fjármagna neysluna.   Fleiri fréttir hafa líka borist t.d. af árekstri bifreiða þar sem tjónvaldurinn hefur verið undir áhrifum fíkniefna.   Eitt slíkt dæmi þekki ég persónulega og mátti ekki miklu muna að dauðinn kvæði dyra í því tilviki.  Fréttin sem sögð var í fjölmiðlum af þeim árekstri var að ekki hafi orðið slys á fólki.  Annað hefur reyndar komið á daginn því áverkar koma oft í ljós eftir á.

Slíkar fréttir draga athygli mína að því samfélagslega meini sem fíkniefnaneysla er.  Af hverju þarf fólk að neyta fíkniefna til að öðlast frelsið en það er það sem margir sækjast eftir og finna þegar víman hefur tímabundið tekið völdin. Það er vitað að til lengdar endist slíkt frelsi ekki heldur setur fíkilinn í fjötra sem erfitt er að losna úr.

Svokallað læknadóp gengur kaupum og sölum.  Upphaf þess má væntanlega rekja til lyfseðils sem skrifaður hefur verið og leystur út í lyfjabúð.

Það er ekki einkamál viðkomandi hvort hann eða hún neytir eiturefna.  Vandamálið sem af því hlýst er samfélagslegt vandamál sem okkur ber skylda til að taka höndum saman um að leysa. Það hlýtur að vera mikið að í samfélaginu ef engin önnur leið er til vellíðunar en þessi.  Það verður að finna aðrar leiðir heldur en dóma um sektir og fangelsisvist.  Helsjúkir fíklar eru margir vistaðir í fangelsum landsins.

„Ég er líka dauðlegur maður eins og allir aðrir,
niðji þess sem fyrstur var skapaður af jörðu.
Líkami minn mótaðist í móðurlífi
2 á tíu mánuðum. Ég varð til í blóði hennar
af sæði karls í unaðsvímu.
3 Þegar ég fæddist dró ég að mér sama loft og aðrir,
var lagður á sömu jörðina og ber alla menn.
Eins og hjá öllum öðrum var grátur fyrsta hljóðið
sem ég gaf frá mér.
4 Vafinn var ég reifum og að mér hlúð með umhyggju.
5 Ekki einu sinni konungur hefur hafið feril sinn á annan hátt.
6 Einn er vegur allra inn í lífið og söm er leiðin út.
7 Þess vegna bað ég Guð og hann gaf mér hyggindi.
Ég ákallaði Guð og andi spekinnar kom til mín.”

Speki Salomons 7. kafli.

Verum hyggin og biðjum um anda speki.  Tökum höndum saman og finnum leiðir til lausnar.  Þjóðkirkjan skorast ekki undan þeirri samfélagslegu ábyrgð að taka þátt í þeirri vegferð.

Pistillinn birtist upprunalega í Morgunblaðinu laugardaginn 18. ágúst. 

 

 

Fyrirmyndir sjálfstæðrar þjóðar

„Það er kveikt á sjónvarpinu. Má ekki bjóða þér upp að horfa?“ spurði biskupsfrúin í Visby á Gotlandi kvöld eitt í júní fyrir tveimur árum. Ég var stödd þar á norrænum biskupafundi og leikur Íslands og Englands stóð yfir og var sýndur í sænska sjónvarpinu. Ég afþakkaði hið góða boð því ég hafði ekki ró í mér til að fylgjast með leiknum. Svo unnu Íslendingar leikinn eins og kunnugt er og allir biskupar norðurlandanna klöppuðu og hrópuðu húið sem þeir voru búnir að læra. Nú erum við allir Íslendingar sögðu þeir. Ég horfði svo á leikinn þegar ég kom heim og dáðist af þessum snillingum og hugsaði til foreldra þeirra og fjölskyldu sem höfðu stutt þá frá því þeir voru litlir drengir. Hjálpað þeim að safna dósum og selja harðfisk og lakkrís, lagt snemma af stað yfir heiðar, keyrt firði út og inn, skutlað á flugvöllinn, sofið á hörðum gólfum skóla og félagsheimila, allt til að hjálpa þeim að gera það sem þeim fannst skemmtilegast, að spila fótbolta og efla þá félagslega til að vera færari um að takast á við áskoranir lífsins og eignast vini fyrir lífstíð.

Og nú eru þeir aftur á faraldsfæti strákarnir okkar og er förinni heitið alla leið til Rússlands. Þjóðin fylgist stolt með og samhugurinn sem í liði þeirra býr yfirfærist á þjóðina alla og gleðin brýst út þegar vel gengur. Þjóðin hefur margsinnis sýnt að hún kann að standa saman á stundum gleði og sorgar. Þá erum við sem einn maður og finnum til samlíðunar með samferðafólki okkar.

Ég var á þjóðhátíðarsamkomu í Mountain í norður-Dakóta fylki fyrir nokkrum árum. Þar var samankomið fólk af íslenskum ættum og að vanda var þjóðsöngurinn sunginn, Ó, Guð vors lands, ó lands vors Guð. Mér varð starsýnt á gamla konu á tíræðisaldri sem var með íslenskt blóð í æðum þó aldrei hafi hún búið á Íslandi. Hún söng með skæru sópranröddinni sinni þjóðsönginn af mikilli innlifun og hafði lagt hönd sína á brjóstið. Úr andliti hennar skein hlýja og gleði, stolt og virðing. Önnur kona sagði mér að hún væri hundrað prósent Íslendingur þó hún væri fædd og uppalin þar vestur frá.

Við eigum fallegt og gjöfult land og það sem mikils er vert, við erum sjálfstæð þjóð í friðsömu landi. Þó við séum fámenn á mælikvarða heimsins erum við nógu öflug til að eiga eitt besta fótboltalið í heimi. Þó við séum fámenn þjóð eigum við nóg til að gefa. Við getum verið þakklát fyrir að fá að búa hér og stolt af því að vera Íslendingur. Þau sem fyrri voru uppi lögðu hart að sér þegar þau unnu að því að á Íslandi væri fullvalda ríki og síðar lýðveldi.

“Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur” segir Páll postuli í fyrra bréfi sínu til Korintumanna.”
Ég óska strákunum okkar góðs gengis í Rússlandi og landsmönnum öllum nær og fjær gleðilegrar hátíðar 17. júní.

Greinin birtist upprunalega í Morgunblaðinu þann 16. júní 2018.

Þó heimsendir yrði á morgun myndi ég planta eplatréi í dag

„Mér þótti skemmtilegast í prestsstarfinu að predika. Vegna þess að þá þarf að ástunda guðfræði og færa innihaldið í texta Biblíunnar til samfélagsins í dag. Hann þarf að passa inn í líf fólks á 21. öld. Þetta eru eldgamlir textar skrifaðir fyrir þúsundum ára. Þetta er spennandi viðfangsefni og líka mjög krefjandi“, segir Agnes M. Sigurðardóttir biskup, þegar blaðamaður Lifðu núna hitti hana að máli fyrir páskana. Agnes sem hefur verið biskup á Íslandi í tæp sex ár, fyrst kvenna til að gegna því embætti, ákvað 17 ára að verða prestur. Eftir að hún lauk námi í guðfræðideild Háskóla Íslands vígðist hún sem æskulýðsprestur þjóðkirkjunnar, en síðan lá leiðin til prestsstarfa úti á landi, fyrst á Hvanneyri í Borgarfirði og þaðan til Bolungarvíkur.

Páskaboðskapurinn á erindi við nútímann

Agnes segir að það þurfi líka að taka tillit til þess hvar er predikað. „Það var öðruvísi fyrir mig að predika í Bolungarvík í söfnuði sem ég þekkti, en í dómkirkjunni á nýársdag í útvarpsmessu, segir hún. Páskarnir eru stórhátíð kirkjunnar og Agnes telur páskaboðskapinn um dauða Krists á krossinum og upprisu, eiga erindi við nútímann. „Vegna þess að hann flytur boðskap um lífð, um ljósið, um vonina, blessunina og um kærleikann. Þetta er boðskapur sem allar manneskjur á öllum tímum þurfa á að halda og auðgar líf hverrar manneskju“, segir hún.

Konur voru fyrstu vottar og boðberar upprisunnar

„Þjáning Krists á krossinum var ekki bara líkamleg, hún var ekki síður andleg. Lýðurinn hrópaði meiðandi og særandi orð að Jesú“, heldur Agnes áfram. „Menn gætu hugsað sem svo, að hið illa hefði sigrað hið góða, þegar Jesú var líflátinn. Konurnar sem komu að gröf hans á páskadag til að smyrja líkið, urðu óttaslegnar þegar þær urðu þess áskynja að hann var ekki þar, en heyrðu þá rödd sem sagði að hann væri upprisinn. Það voru konur sem voru fyrstu vottar og boðberar þessara tíðinda, sem kirkjan okkar byggist á.“ Agnes segir páskaboðskapinn skipta máli, það sé svo margt fólk í veröldinni sem hafi fengið að reyna það í eigin lífi að Jesús er upprisinn. Þeir finni fyrir því að þeir gangi ekki einir á lífsins vegi, heldur sé Jesús með þeim.

Það er alltaf von um „upprisu“

„Maður sér margar líkingar dauða og upprisu Krists í lífinu“, segir Agnes. Það eru margar „krossfestingar“ sem manneskjan getur gengið í gegnum á lífsleiðinni. Það er margt sem gerist sem er erfitt, ósanngjarnt og óviðráðanlegt. Sumir berjast við fíkn, aðrir við sjúkdóma. Þarna kemur krossfestingin og upprisan inn í myndina. Það hjálpar fólki að sjá að maður festist ekki á erfiðum stað, það er alltaf von um „upprisu“, segir hún. „Eftir veturinn kviknar líf á ný og grasið verður grænt. Þannig virkar upprisan í daglegu lífi mínu. Bölið hefur ekki sigur, heldur blessunin. Dauðinn hefur ekki síðasta orðið heldur lífið. Illskan hefur ekki betur, heldur kærleikurinn. Það er ekki krossfestingin sem heldur velli, heldur upprisan. Þetta finnst mér gefa mér kraft í mínu lífi, til að þrauka þegar illa gengur og til að treysta því að það komi betri dagar“.

Þeir sem eldast hugsa meira um tilgang lífsins

„Reynsla okkar með aldrinum breytir lífsviðhorfinu. Eftir því sem við eldumst, höfum við reynt meira og kynnst fleiru“ segir Agnes, þegar talið berst að aldri fólks. „Það eru aðrir hlutir sem fara að skipta máli, hlutir sem skiptu menn engu á öðrum aldursskeiðum. Lífið líður svo fljótt. Menn spyrja sig hvernig gat þetta gerst svona hratt? Ég held að flestir sem eldast staldri við og hugsi meira um tilgang lífsins og hvað þeir vilji skilja eftir sig þegar þeir fara héðan. Maður var ekki að hugsa um dauðann á meðan maður var yngri en nú finnur maður að lífið styttist í annan endann. Samt á maður eins og Lúther sagði, alltaf að hugsa um framtíðina. Hann sagði þessi fleygu orð. Þó heimsendir yrði á morgun, myndi ég planta eplatréi í dag“.

Greinin birtist upprunalega á vefnum Lifðu núna þann 30. mars 2018.