Vatn er von

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Nýtt ár er hafið í kirkjunni okkar.  1. sunnudagur í aðventu markar upphaf nýs kirkjuárs og jafnframt árlega söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar, sem í ár ber yfirskriftina „Vatn er von.“  Í fréttablaði Hjálparstarfsins sem birtist í dagblaði í gær má lesa að  „Í Sómalífylki í Eþíópíu valda tíðir þurrkar viðvarandi matarskorti og vannæringu. Vatnsskorturinn leiðir til lélegs ástands bústofnsins en dýralæknaþjónusta er stopul. Afleiðingin er fátækt en vegna hennar er skortur á tækjum og tólum og því eru ræktunaraðferðir í jarðrækt takmarkaðar. Allt leiðir þetta til þess að fæðuöryggi er mjög ábótavant og lífsskilyrði eru slæm.

Hjálparstarf kirkjunnar hefur í níu ár starfað með sjálfsþurftarbændum á svæðinu að því að tryggja aðgengi að hreinu vatni, auka fæðuval og efla völd og áhrif kvenna, samfélaginu öllu til farsældar.

Starfið hefur borið góðan árangur en svæðið er stórt og íbúar margir.“  Markmiðið er að hjálpa fólkinu til sjálfshjálpar.

Til þessa verkefnis safnar Hjálparstarfið nú í aðventusöfnun sinni.  Okkur gefst tækifæri til að styðja verkefnið með fjárframlagi sem hægt að er að koma til Hjálparstarfsins með ýmsu móti.

Við sem búum hér á landi þekkjum ekki vatnsskort. Oftast er nóg af vatni í ám og lækjum og krönum landsmanna.  Vatnsskortur hefur víðtæk áhrif á lífið og lífskeðjuna og veldur fátækt hjá íbúum þeirra svæða sem ekki njóta vatns.  Vatnið gerir kraftaverk og bætir líf og lífsskilyrði.

Þegar ég átti þess kost að fara til Malawí og sjá afrakstur vatnsverkefnis Hjálparstarfsins þar gerði ég mér betur grein fyrir því að vatn er von.  Vatnið sem pumpað var úr brunnunum bætti heilsufar því það var hreint og tært.  Það gerði fólki mögulegt að rækta grænmeti til eigin neyslu og gras fyrir húsdýrin, geiturnar og nautgripina.  Áhrifin voru því margþætt, bætandi og lífgefandi.  Ég horfði upp í himininn og hugsaði að þetta væri sami himinn og ég leit upp til á Íslandi.  Ég horfði á sólina og tunglið og var þess ennþá meðvitaðri að þetta var sama sólin og sama tunglið og við horfum á hér á landi.  Jörðin undir fótunum var á sama hnetti og Ísland.  Samt var himinn og haf á milli lífsskilyrða í þessum löndum.  Sumt má rekja til loftslags en flest til manna.  Manna sem hafa tekið landið traustataki í þeim tilgangi að græða á því.  Manna sem hafa einhvern hag af því að halda við fátækt og menntunarskorti þess fólks sem landið byggir.  Það er skólaskylda í landinu en ekkert er fylgst með því hvort börnin ganga í skóla.  Á meðan börnin gengu í slitnum, óhreinum, allt of stórum eða allt of litlum fötum, gengu um berfætt,  óku glæsilegir bílar í röðum eftir veginum sem liggur að þorpunum.  Ástæðan var heimsókn forsetans til fólksins, en þó bara þeirra sem gátu komið sér sjálf á þann stað sem forsetinn var.

Það hlýtur eitthvað að vera bogið við þann hugsunarhátt sem leyfir slíka mismunun eftir því hvar fólk fæðist hér á jörð.  Það er í mannlegu eðli að vilja bjarga sjálfum sér og sínum.  En í helgri bók stendur að við eigum að elska Guð og náungann eins og okkur sjálf.  Náungi okkar getur verið nágranninn í næsta húsi og náunginn getur verið hvar sem er á þessari jörð.  Allir geta hjálpað einhverjum en enginn getur hjálpað öllum er stundum sagt.  Við sem höfum meira en nóg skulum muna eftir náunga okkar nær og fjær á aðventunni sem hafin er og endranær.  Það er eitt sem aldrei eyðist þá af er tekið og það er kærleikurinn.  Hann fellur heldur aldrei úr gildi.

Í ritningartextum þessa fyrsta sunnudags í aðventu erum við minnt á nærveru Guðs og vonina sem Guð gefur.  Hann mun fylgja rétti og réttlæti í landinu segir í hinum ævaforna texta Jeremía spámanns.  Í guðspjalli Lúkasar segir frá því þegar Jesús kemur til heimabæjar síns eftir að hafa dvalið í eyðimörkinni þar sem hans var freistað en þær freistingar stóðst hann allar.  Þangað var hann leiddur eftir skírnina í ánni Jórdan og fór ekki einsamall, því sá andi er yfir hann kom í skírninni fylgdi honum.  Þegar hann kom heim lét hann það verða sitt fyrsta verk að fara í guðsþjónustu þar sem hann las sjálfur úr sinni helgu bók Gamla testamentinu um andann sem var yfir honum.  Þannig hóf hann starf sitt þegar hann fór og prédikaði komu guðsríkisins eins og það er orðað í guðspjöllunum.  Guðspjallstextinn á því vel við sem fyrsti texti nýs kirkjuárs.  Nýtt upphaf, ný tækifæri, nýir möguleikar.

Sögurnar um Jesú og sögur hans í guðspjöllunum og sögur Biblíunnar eru lítt þekktar nú til dags.  Í vetur hefur nokkrum sinnum verið spurt um sögur eða orð úr Biblíunni í spurningaþættinum Útsvari í ríkissjónvarpinu og hafa keppendur ekki getað svarað.  Það er kannski eðlilegt að því leytinu til að ekki eru lengur kenndar Biblíusögur í grunnskólum landsins eins og áður var og margir sem hafa verið börn á undanförnum árum hafa ekki sótt sunnudagaskóla í kirkjum landsins.  Það blasir við að Biblíukunnátta landsmanna fer þverrandi og þá er stutt í að lífsviðhorf kristinnar trúar, vonar og kærleika víki fyrir einhverju sem fólk almennt gerir sér ekki grein fyrir hvert er.  Það er mikil ólga í heiminum í dag, sem birtist í ýmsum myndum.  Hér á landi sem í hinum vestræna heimi birtist hún meðal annars í því að fólk vill eitthvað annað en hefur verið og er, en getur ekki skilgreint hvað er.  Á stundum er, sem krafa sé uppi um, að breyta breytinganna vegna en ekki til gagns fyrir einstaklinga og samfélag.

Eitt er þó ljóst á fréttum nú um stundir og á tali manna á milli að fólk líður ekki mismunun, órétt, græðgi.  Og það gerir Jesús ekki heldur.  Hann kom til heimabæjar síns eins og guðspjallið greinir frá „til að flytja fátækum gleðilegan boðskap, boða bandingjum lausn og blindum sýn, láta þjáða lausa og kunngjöra náðarár Drottins.“  Við sem viljum feta í fótspor hans höldum áfram að koma þessum boðskap til skila því verkefnið tekur aldrei enda.  Við sem höfum valið að vera hans erum send með erindið í krafti þess sama anda og var yfir Jesú.  Nærvera þess anda er stundum mikil, stundum lítil því við erum fólk á ferð með okkar veikleika sem og styrkleika, okkar mannlegu bresti sem nauðsynlegt er að vita af og bregðast við og reynum eftir fremsta megni að verða betri í dag en í gær.  Samt er það nú svo að við getum aldrei gert öllum til geðs þó við reynum eftir fremsta megni að leggja okkur fram um það.

Boðskapur Jesú byggist ekki aðeins á því að frá honum sé sagt með orðum heldur á hann einnig að sjást í verkum okkar.  Þess vegna ber okkur að muna eftir meðbræðrum okkar og systrum hvort sem er erlendis eða hérlendis.  Hjálprstarf kirkjunnar hvetur okkur á aðventunni til að muna eftir systkinum okkar í Jijiga í Eþýópíu sem hafa öðlast von með vatninu sem borað hefur verið eftir í héraði þeirra.  Hér heima eru líka margir sem þarfnast uppörvunar og stuðnings á þessum dimmasta tíma ársins.  Hjálparstarfið leitast einnig við að vera til staðar fyrir þau.  Besta jólagjöfin sem hægt er að gefa er að gefa þeim sem líða skort eða kvíða því að geta ekki glatt börnin sín á hátíð ljóss og friðar.  Hjálpum því góða fólki sem starfar hjá Hjálparstarfi kirkjunnar að hjálpa öðrum með því að gefa gjöf sem gefur.

Við göngum nú inn í undirbúningstíma jólanna, aðventuna, jólaföstuna. Vörður á þeirri leið eru ljósin á aðventukransinum sem setja gönguna, lífið og dagana í samhengi sögunnar um fæðingu Jesú.  Spádómanna, sem fyrsta kertið minnir okkur á, fæðingarstaðarins sem annað kertið minnir okkur á, hirðanna sem fyrstir fengu að heyra tíðindin um fæðingu hans, sem þriðja kertið minnir okkur á og boðberanna, englanna, sem fjórða kertið minnir okkur á.  Aðventugangan veldur sumum kvíða öðrum gleði.  Það eru margar tilfinningar sem bærast í huga okkar og sinni á þessum árstíma.  Minnumst þess að andi Guðs er enn  með okkar hér  og nú eins og með Jesú.  Hann mun veita gleði og frið, stuðning og huggun, miskunn og kærleika nú og alltaf.  Við þurfum aðeins að vera móttækileg fyrir honum og leyfa honum að koma inn í líf okkar og hafa áhrif á líf okkar og  í lífi okkar.  Guð gefi gleði og frið í sál og sinni á aðventunni, í Jesú nafni.  Amen.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Prédikun flutt í útvarpsmessu í Hallgrímskirkju á fyrsta sunnudegi í aðventu 27. nóvember 2016

Fyrirmyndin ! Prédikun í Dómkirkjunni 6. nóvember 2016

Esk 37.1-14;
Kól 1.9b-14 (15-20);
Matt 9.18-26

Við skulum biðja:

Vertu Guð faðir, faðir minn
í frelsarans Jesú nafni.
Hönd þín leiði mig út og inn
svo allri synd ég hafni. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Það heyrast orgeltónar í útvarpstækinu sem stendur í glugganum í borðstofunni. Tónarnir koma frá orgelinu hér í Dómkirkjunni. Tónlistin frá Dómkirkjuorgelinu barst um allt land og gerir enn þegar messunni er útvarpað. Reyndar var það svo á síðustu öld að jarðaförum var líka útvarpað og fannst sumum afleitt af missa af þeim útsendinum. Hversu mörg af kynslóðunum sem uxu upp eftir að útvarpið kom til sögunnar og fram yfir miðja síðustu öld, eiga ekki slíkar minningar?

Klukkurnar hringja og aftansöngurinn hefst kl. 18 á aðfangadagskvöld hér í Dómkirkjunni. Margar fjölskyldur láta þessa beinu útsendingu í útvarpi allra landsmanna hringja inn jólin sín.

Dómkirkjan, húsið sjálft, starfið og þjónustan sem hér fer fram hefur haft áhrif langt út fyrir raðir sóknarbarnanna. Dómkirkjan er fyrirmyndin af mörgum kirkjubyggingum víða um land, guðfræðin sem hér hefur verið iðkuð og prédikuð hefur mótað kirkjuna og umræðuna í samfélaginu og tónlistin sem hér hefur verið flutt hefur vakið eftirtekt og áhuga. Organistarnir landsþekktir.

Pétur Guðjohnsen var fyrsti organisti Dómkirkjunnar og sama ár og hann kom heim frá námi í Danmörku kom fyrsta orgelið í kirkjuna. Það var árið 1840. Það hefur verið hamingjudagur í kirkjunni þá enda ekki á hverjum degi sem þeirrar tíðar fólk átti þess kost að heyra spilað á hljóðfæri og það af menntuðum manni á því sviði. Pétur Guðjohnsen lagði mikið til tónlistar í kirkjunni. Hann lagði sig fram um að útbreiða sönglistina og gaf út sálmasöngbók þar sem sálmarnir voru útsettir fyrir þrjár raddir. Að þessum arfi búum við enn í dag í kirkjunni því þúsundir manna syngja í kirkjukórum víðs vegar um land.

Dómkirkja. Kirkja er guðshús kristinna manna. Orðið sjálft er komið af gríska orðinu kyriakón, sem þýðir það sem tilheyrir Drottni eða hús Drottins. Dómkirkja er kirkja þar sem biskup hefur aðsetur. Íslenska orðið Dómkirkja er komið af latneska orðinu domus sem merkir hús. Á ensku heitir dómkirkja cathedral. Það orð er fengið úr latínu, þar sem cathedra merkir stóll eða sæti. Cathedral merkir því í raun biskupsstóll og lýsir vel hlutverki dómkirkjunnar. Kirkjan hér við Austurvöll hefur alltaf verið dómkirkja, en líka sóknarkirkja. Fyrst allra Reykvíkinga, nú vesturbæjarins í hundrað og einum Reykjavík.

Biskupsstóllinn var fluttur til Reykjavíkur úr Skálholti. Reyndar var það svo að ákveðið var að sameina biskupsstólana tvo í Skálholti og á Hólum þannig að einn biskup væri yfir öllu landinu, sem sæti í Reykjavík. Hafist var handa við byggingu Dómkirkjunnar sem var eins og fram hefur komið vígð árið 1796. 220 ára afmælis Dómkirkjunnar hefur verið minnst með ýmsum hætti þetta ár.

Ef veggirnir gætu talað hefðu þeir frá mörgu að segja. Þeir gætu þulið sögurnar úr Biblíunni. Þeir gætu sagt frá stórum stundum í lífi einstaklina og þjóðar. Þeir gætu sagt frá sorginni sem hér hefur fengið útrás á kveðjustundum og gleðinni sem ríkir þegar brúðhjón ganga út undir marsinum í lok giftingarathafnarinnar. Þeir gætu rifjað upp ótal skírnarathafnir og þann kærleika sem skín úr hverju andliti þegar lítið barn er borið til skírnar. Já, það eru margar athafnirnar sem hér hafa farið fram og margt fólkið sem hér hefur gengið út með blessun Guðs.

Hér var þjóðsöngurinn frumfluttur, hér var guðsþjónusta haldin við stofnun hins íslenska Biblíufélags. Hér hafði slökkviliðið aðsetur fyrir margt löngu og hér hafa klukkur hringt inn til helgra tíða.

En fyrst og fremst hefur Guðsorðið verið haft um hönd, bænir beðnar og blessun veitt. Trúin á Guð kristinna manna boðuð og Jesú sögurnar mörgu og djúpu verið útlagðar.

Í dag var lesið úr helgri bók venju samkvæmt. Úr spádómsbók Esekíels í Gamla-testamentinu, úr Kólossubréfinu í Nýja-testamentinu og úr guðspjalli Matteusar. Guðspjallssagan segir frá veikri konu og látinni stúlku og forstöðumanninum föður hennar. Það er talað um trú og Jesú og áhorfendur sem hlógu að Jesú. Í sögunum birtist kærleiki Guðs í verki þar sem konan læknast og dóttirin rís upp frá dauðum. Konan sem hafði haft blóðlát í 12 ár var þess fullviss að Jesús gæti læknað hana, bara ef hún fengi snert klæðafald hans. Forstöðumaðurinn kom til Jesú í sorg sinni eftir dótturmissinn og var þess fullviss að Jesús gæti gefið henni lífið aftur.

Þetta eru ævagamlar sögur en enn er kona á ferð og lítil stúlka dóttir manns í góðri stöðu. Lítil stúlka sem lífið leikur við þar til dauðinn vitjar og framtíðarvonir bresta. Það eru allt of margir sem berjast við sjúkdóma sem erfiðlega gengur að lækna. Konan í sögunni hafði búið við slíkt í 12 ár. Jesú læknaði hana. Hún bar sig eftir björginni því hjá Jesú hafði hún von um lækningu og betra líf á eftir. Og hvað gera ekki þau sem berjast við sjúdóma og erfiðleika. Leita leiða til betra lífs, að minnsta kosti meðan kraftar leyfa. Það er óásættanlegt að veikt fólk þurfi að óttast það að geta ekki notið læknisþjónustu vegna peningaleysis. Nóg er nú að hafa áhyggjur af sjúkdómi og framtíð sinni þó peningaáhyggjur bætist ekki við. Það er líka óásættanlegt að veiku fólki sé synjað um nauðsynleg lyf vegna þess að kostnaðurinn rúmast ekki innan fjárlaga. Fréttir af slíkum málum hafa heyrst á árinu. Það er eitthvað rangt við forgangsröðina þegar lífið og líknin eru minna metin en peningar og steinsteypa.

Forstöðumaður var hann faðirinn í sögunnni. Það bendir til að hann hafi verið í góðri stöðu og sennilega ekki þurft að hafa áhyggjur af lifibrauði sínu. Kannski hefur lífið leikið við hann og gengið sinn vana gang. En svo gerist það sem erfiðast er hér í heimi, að missa barnið sitt. Dóttirin sem hann hefur elskað eins og foreldrar gera lá á líkbörunum. Það er ekki hægt að sætta sig við það. Hann fer til Jesú, sem hann hefur líklega heyrt af og biður um hið ómögulega. Að hann gefi dótturinni lífið aftur. Og Jesús gerði það. Hann gaf stúlkunni lífið aftur. Hún reis upp til lífsins og nýrrar framtíðar fyrir orð Jesú. Fyrir orð Jesú.

Lífið sem Jesús gefur er líf af lífi Guðs. Lífið sem gefið er í heilagri skírn. Skírnum fækkar sífellt hér á landi og um allan hinn vestræna heim. Kannski er það af því að við erum orðin svo góðu vön í þessum heimshluta að við þurfum ekki á neinu né neinum að halda. Við getum allt sjálf og við vitum allt sjálf. En yfir lífinu ráðum við ekki þó við ráðum því hvernig við lifum því að einhverju leyti. Einn daginn getum við verið í sporum forstöðumannsins eða konunnar sem hafði verið veik í 12 ár. Þau leituðu til Jesú í neyð sinni. Vitað er að erfið reynsla verður oft til þess að fólki auðnast að finna sinn Guð og leita til hans á meðan aðrir reyna hið gagnstæða.

Í nýliðinni viku var allra heilagra messa, en þá er látinna minnst. Þar sem daginn ber ekki upp á sunnudag er látinna minnst í kirkjum landsins næsta sunnudag á eftir sem erí dag. Guð blessi og helgi minningu allra þeirra sem farin eru á undan okkur héðan úr þessum heimi og gefi ástvinum huggun og styrk. Hér í Dómkirkjunni hafa margir kvatt sína nánustu hinsta sinni.

Kirkjudagur Dómkirkjunnar er í dag. Hann er ætíð sem næst vígsludegi kirkjunnar, 30. október. Tónlistardagar Dómkirkjunnar hófust líka á afmælisdeginum. Stofnandi þeirra var þáverandi organisti, Marteinn H. Friðriksson, sem lést fyrir nokkrum árum. Mikill metnaður hefur verið lagður í tónlistardagana alla tíð og er svo enn undir forystu núverandi organista.

Tónlist og trú eru vinkonur sem ganga í takt. Þær vinkonur veita gleði á hátíðarstundum, huggun á sorgarstundum, andlega næringu á lífins leið.

„Vertu hughraust, dóttir,“ sagði Jesús, „trú þín hefur bjargað þér.“ Hið sama segir hann við hvert og eitt okkar er til hans leita. Trúin bjargar, trúin á kærleiksríkan Guð. Hún hjálpar okkur á erfiðum stundum. Hún nærir okkur í dagsins önn. Hún gefur okkur líf í fullri gnægð.

Til hamingju með kirkjuna ykkar kæri söfnuður.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda, sé með yður öllum. Amen.

Ávarp við setningu kirkjuþings 5. nóvember 2016

Forseti kirkjuþings, kirkjuþingsfulltrúar, vígslubiskup, tónlistarfólk, góðir gestir.

Þegar saga kristinnar kirkju er skoðuð sést að staða hennar hefur verið með ýmsu móti hér í heimi. Nokkrir atburðir og mannanna verk hafa mótað hana, sveigt hana af leið, siðbætt hana og breytt stöðu hennar. Ber þar hæst sá atburður er við minnumst á næsta ári þegar munkurinn Marteinn Lúter mótmælti aflátssölu kirkju sinnar sem leiddi til þess að kirkjudeild sú er við tilheyrum er við hann kennd. Það var árið 1517 og hófst 500 ára minning siðbótarinnar með sameiginlegri bænastund kaþólskra og lúterskra í dómkirkjunni í Lundi á mánudaginn var, 31. október, siðbótardaginn. Í Lundi var lúterska heimssambandið stofnað árið 1947 og er íslenska þjóðkirkjan ein af stofnendum sambandsins sem telur núna 145 kirkjur í 98 löndum.

Á vegferð lútersku kirkjunnar hafa ýmsar ákvarðanir verið teknar sem leitt hafa hana áfram á veginum. Hér á landi hafði kirkjuskipan Kristján III. Danakonungs sem lögtekin var árið 1541 mikil áhrif. Þá hófst þátttaka veraldlega valdsins á stjórn kirkjunnar, en það fyrirkomulag var við lýði í mismunandi myndum þó, til ársins 1997 er þjóðkirkjan tók við stjórn innri mála sinna.

Þjóðkirkjuhugtakið er fyrst nefnt í stjórnarskránni sem staðfest var hér á landi árið 1874. Ákvæði hennar um þjóðkirkjuna hafði mikil áhrif vegna ákvæða hennar um vernd og stuðning ríkisvaldsins við kirkjuna. Það ákvæði er enn í gildi eins og kunnugt er og samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vill meiri hluti þjóðarinnar að svo verði áfram. Hlýtur það að benda til þess að þjóðin vilji enn um sinn láta kristin gildi og lífsskoðun ráða för í mótun samfélagsins. Á meðan núverandi stjórnarskrá gildir hlýtur sá skilningur að ríkja, að það sé viljayfirlýsing ríkisins að það vilji standa á kristnum grunni, viðurkenni að þjóðmenningin byggir á kristnum verðmætum og vilji styðja kirkjuna til áhrifa á fólkið í landinu hvað varðar hugsunarhátt og framkomu.

En hvað merkir það að hin lúterska kirkja okkar sé þjóðkirkja? Það merkir ekki eitthvað eitt. Það getur merkt það að meirihluti þjóðarinnar tilheyri henni. Sá skilningur hefur verið útbreiddur og finnst sumum þeim er ekki vilja tilheyra henni að það geti ekki gengið lengur að ríkisvaldið styðji og verndi kirkju sem fækkar í ár frá ári. Þjóðkirkja getur líka þýtt það að þjóðin og kirkjan séu nátengd, eigi samfylgd á stórum stundum í lífi fólks. Sú skoðun sem þó mest er haldið á lofti nú er að Þjóðkirkjan sé þjóðkirkja vegna þess að hún vill þjóna öllum þeim er hér búa. Spyr ekki um skilríki þegar þjónustunnar er óskað. Þjóðkirkjan er kirkja sem hefur þéttriðið net um land allt og þjónar fólki í nærsamfélaginu. Boðar ekki aðeins í orði heldur einnig í verki. Það er kirkja sem er samhljóma þó raddirnar séu margar. Þá skilgreiningu vil ég nota um þá kirkju sem ég leiði sem biskup.

Eins og kunnugt er setti Lúter fram kenningar sem hafa haft mótandi áhrif á kirkjuna sem við hann er kennd. Hann setti fram kenninguna um hinn almenna prestsdóm sem er ástæðan fyrir því að við erum hér saman komin. Kenningin gengur út á það að enginn munur sé á mönnum, allir séu jafnir. Skírnin sem sé hin eina vígsla. „Sá sem stígur upp úr skírnarvatninu, getur hrósað sér af því að vera nú þegar prestur, biskup og páfi“ sagði Lúter. Allir skírðir eiga að virða meginþætti almenns prestsdóms, sem eru boðun, fyrirgefning og fyrirbæn. „Hinn almenni prestsdómur er ótvíræður vegna skírnarinnar og krefst þess að almennir safnaðarmeðlimir séu virkir í helgihaldi og stjórnun kirkjunnar.“ „Kirkjan er fyrst og fremst kirkja orðsins og náðarmeðalanna og hins almenna prestsdóms. Hún er sýnileg hér í heimi vegna þess að orðið er boðað og náðarmeðul veitt. Til þess að svo megi verða þarf hún skipulegt helgihald, hún þarf á embættismönnum að halda og stofnun sem tryggir starfsskilyrðin. Hin ósýnilega kirkja er aftur á móti samsett úr þeim sem meðtaka orð og náðarmeðul í trú sér til hjálpræðis.“ (Sigurjón Árni Eyjólfsson: Ríki og kirkja, bls. 81).

Kirkuþing hefur það hlutverk að tryggja starfsskilyrðin. Það er gert með því að huga að ytra skipulagi, tryggja löggjöf um kirkjuna og leggja til atriði sem bæta innra starf hennar. Á þessu kirkjuþingi eru mál sem taka til alls þessa. Það er alveg ljóst að séu verkaskipti ekki skýr, boðvald ekki skýrt, víglínur ekki ljósar eða virtar, getur fólki í kirkjunni ekki liðið vel og gengur ekki í takt. Þá verður kirkjan ómstríð og rödd hennar veik, því í okkar lútersku kirkju er ekki einn talsmaður, eins og t.d. í rómversk kaþólsku kirkjunni, þar sem páfinn talar og kirkjan hlýðir. En þó kirkjan sé margróma þýðir það ekki það að allir hafi umboð til að gera hvað sem er, segja hvað sem er, hvar sem er. Fólkið í kirkjunni verður að vita hvað til síns friðar heyrir og virða þau mörk sem sett eru með reglum og siðum. Lúter var það ljóst að kirkja Krists þyrfti á stjórnun og skipulagi að halda. Hann setti þó ekki fram skipurit fyrir kirkjuna heldur greindi hann eðli hennar og forsendur.

Fyrir kirkjuþingi liggur frumvarp til nýrra þjóðkirkjulaga. Það er engin nýlunda, svo hefur verið á kirkjuþingum undanfarinna ára. Í mínum huga er ljóst að vinna við slíkt frumvarp verður að byggja á grunnvinnu sem felst í því að gæta hins lúterska trúararfs, efna til samtals meðal þjóðkirkjufólks um kirkjuna og koma sér saman um framtíðarsýn. Slík vinna getur tekið mörg ár eins og nú þegar hefur sýnt sig, en minna má á að þau 5 leiðarstef sem Frans páfi og Munib Younan undirrituðu fyrir hönd rómversku kaþólsku kirkjunnar og lúterska heimssambandsins síðast liðinn mánudag í dómkirkjunni í Lundi voru afrakstur 50 ára samtals milli þessara tveggja kirkjudeilda. Meginstefið er að kirkjudeildirnar eiga alltaf að hafa einingu að leiðarljósi en ekki einblína á það sem skilur að. Textinn er ekki langur, aðeins 5 setningar.

Lúter lagði m.a. áherslu á almenna þekkingu á boðskap Biblíunnar og það verður að segjast að okkar lúterska kirkja, þjóðkirkjan hefur ekki lagt nóga áherslu á þennan þátt. Áður en skólar tóku að nokkru leyti yfir fræðsluna hvað þetta varðar sáu kirkjunnar þjónar um uppfræðsluna og eldri kynslóð fræddi hina yngri. Eftir að skólaskylda komst á sofnaði kirkjan á verðinum og gerði ráð fyrir að skólinn sæi um uppfræðsluna. Nú hefur sú þróun orðið að lítil áhersla er lögð á kristinfræðikennslu í grunnskólum og kirkjan verður að sinna fræðsluhlutverki sínu sem skyldi. Það er ekki ásættanlegt að sjá lægri félagatölur kirkjunnar, ár frá ári og líta ekki í eigin barn hvað það varðar. Við verðum að uppfræða fólkið í landinu með öllum þeim tækjum sem í boði eru annars er hætta á því að færri og færri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita menningararfinn hvað kristin áhrif áhrærir. Það hefur færst í vöxt að börn eru ekki skírð. Þar með fer barnið á mis við fræðslu um kristna trú og kristin lífsgildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir.

Þórir Kr. Þórðarson, sá góði kennari og fræðimaður sem hafði mjög svo mótandi áhrif á kynslóðir presta um árabil sagði í grein um lífsgildin og börnin: „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu. Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.“ Ég vil ekki að andvaraleysi kirkjunnar varðandi fræðslu og tilboð um hana verði til þess að trú, von og kærleikur gleymist, en á þessi atriði kristinnar trúar lagði Lúter áherslu.

Það er tiltölulega auðvelt að setja fram fræðsluefni nú á dögum til þess eru margar leiðir. En það er ekki nóg. Það þarf að fylgja því eftir að fræðsla komist til skila. Prófastsdæmin hafa m.a. það hlutverk að standa fyrir fræðslu. Hvert prófastsdæmi getur tekið að sér málaflokk hvað fræðsluna varðar. Kirkjuráð verður að gera ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlun sinni. Fræðslumiðstöðvar um landið geta komið efninu á framfæri, en hlutverk þeirra er að standa að fræðslu fyrir fullorðna. Samvinna kirkjunnar og fræðslumiðstövanna er ekki nýlunda en aðalatriðið er að vinna stíft að því að koma efninu á framfæri og vinna að því að vekja áhuga fólks á efninu. Það er ekki nóg að útbúa efni og auglýsa námskeið. Aðal vinnan felst í því að vekja áhuga fólks. Til þess þarf mannafla, til þess þarf fjármagn.

Fyrir tveimur vikum fór fram landsmót æskulýðsfélaganna, en það hefur verið haldið í októbermánuði um áraraðir. Mótið fór fram á Akureyri að þessu sinni og sóttu það um 500 ungmenni víðs vegar að af landinu. Undanfarin ár hefur æskulýðssamband þjóðkirkjunnar verið í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar í tengslum við landsmótin. Unglingarnir eru með þeim hætti minnt á að vera „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess“ eins og Jakob postuli orðar í riti sínu. Þátttakendur fá fræðslu og láta gott af sér leiða. Þau hafa frelsað þrælabörn úr skuldaánauð og safnað fyrir fátæk ungmenni á Íslandi svo dæmi sé tekið. Í ár var þemað í takt við verkefni okkar tíma, „Flóttamenn og fjölmenning.“ Ungmennin söfnuðu fötum áður en þau fóru að heiman fyrir flóttafólk og hælisleitendur á Íslandi, í Jórdaníu, Sýrlandi og Líbanon en í síðasttöldu löndunum vinnur lúterska heimssambandið með flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna og fleirum að hjálparstarfi. Undirbúningur og allt utanumhald þessara landsmóta er til fyrirmyndar í alla staði. Mikil þekking og reynsla hefur orðið til og ég fullyrði að þarna er kirkjan í farabroddi faglegheita og skipulags.

Fyrir nokkrum árum samþykkti kirkjuþing að setja á oddinn vinnu við forvarnir gegn kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi. Sú vinna hefur verið í gangi síðan og er nú farin að taka á sig mynd í formi námskeiða, fræðslumyndbands, gæðavottunar og fleira. Um er að ræða samstarfsverkefni fræðslusviðs og fagráðsins sem ber yfirskriftina Verklag í viðkvæmum aðstæðum. Þetta er sístætt verkefni sem stöðugt þarf að halda á lofti og tryggja að lifi til framtíðar. Unnið er að því að allt starfsfólk kirkna landsins fái tiltekna fræðslu og undirriti vilja sinn til þess að vinna samkvæmt þessu verklagi.

Með þessu móti mun kirkjan vera í fararbroddi hér á landi hvað varðar forvarnir gegn kynferðisofbeldi og öðru ofbeldi þar sem byggt er á alþjóðlegum stöðlum og samþykktum. Vinna þessi tengist því óneitanlega gæðastjórnun innan kirkjunnar og vinnustaðamenningu. Stefnt er að því að ýta verkefninu úr vör á haustmánuðum 2017. Þar sem um svo mikilvægt og viðkvæmt verkefni er að ræða er brýnt að tryggja því brautargengi með öllum tiltækum ráðum þannig að það myndist sterk samstaða milli alls starfsfólks, allra sókna og prófastsdæma um þessi vinnubrögð.

Fullyrt er að ef lífsstíll allra jarðarbúa væri eins og Íslendinga þyrftum við um 20 jarðir. Þjóðkirkjan vill vera í fararbroddi og til fyrirmyndar í umhverfismálum. Eftir málþing sem haldið var um efnið í Skálholti fyrir ári var menntamálaráðherra hvattur til að beita sér fyrir stóraukinni fræðslu í menntakerfinu um vistkerfi jarðar. Á Skálholtshátíð í sumar var hafist handa við endurheimt votlendis á Skálholtsjörðinni. Markmið með endurheimt votlendis er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Samningur um aðgerðir í loftslagsmálum sem samþykktur var í París í fyrra hefur tekið gildi á Íslandi en í honum er kveðið á um aðgerðir allra ríkja til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Kirkjan vill taka þátt í því að varðveita jörðina okkar og lífið á henni. Það er eitt af þeim stóru verkefnum sem fylgja þarf eftir innan kirkjunnar. Ég mun beita mér fyrir því að svo megi verða.

Minna má á að kirkjuþing samþykkti umhverfisstefnu Þjóðkirkjunnar árið 2009. Ástæða er til þess að hvetja til þeirra framkvæmda sem þar er getið, eins og t.d. að vinna gegn sóun og ofneyslu. Pappírsleysi á kirkjuþingi er liður í því.

Kirkjuþing kom fyrst saman árið 1958. Það hefur því starfað í hartnær 60 ár. Hlutverk þess hefur breyst eftir lagabreytinguna árið 1997. Hlutverk þess er ærið. Í nýju frumvarpi, sem hér er lagt fram er verkefnum þess fjölgað og hlutverk þess eflt. Það er liður í þeirri lýðræðisvæðingu sem á sér stað um allan hinn vestræna heim. Ég vara við því að ætla þinginu svo ærin verkefni að hinn almenni kirkjumaður eigi þess ekki kost að taka þátt í þingstörfunum. Það er ekki hægt að ætla vinnandi fólki að koma saman í höfuðborginni og afgreiða enn fleiri verkefni en nú þegar liggja fyrir þinginu ár hvert, án þess að gera ráð fyrir annars konar vinnubrögðum. Þau þurfa að vera markvissari, tæknilegri og studd meira utanumhaldi. Það er ekki hægt að ætla fólki að vinna flókna og faglega vinnu í margra manna hópi sem býr víðs vegar á landinu. Málefni kirkjunnar snúast um verkefni sem vinna þarf í skýru umboði en ekki um vald. Við erum saman á þeirri vegferð að byggja upp og viðhalda sterkri kirkju, Guði til dýrðar og náunganum til blessunar. Það gerum við með faglegum vinnubrögðum, aukinni fræðslu, fjölbreyttu helgihaldi, þjónustu í nærsamfélaginu, sérþjónustu og samtali. Með því að hafa skýrt skipulag og boðvald, virða mörk og ákveða og setja víglínur.

Ég vil nota tækifærið og þakka þeim er undirbúið hafa kirkjuþingið, starfsfólki Biskupsstofu og kirkjuráðs, forsætisnefnd og þingfulltrúum. Einnig tónlistarfólki og heimafólki hér í Grensáskirkju fyrir afnot af kirkju og safnaðarheimili.