Nýársprédikun ársins 2019

Enn á ný höfum við litið nýtt ártal.  Víða um land var kveikt á blysum í fjallshlíðum eða öðrum áberandi stöðum með ártalinu 2018 sem breyttist svo í 2019 þegar klukkan sló 12 á miðnætti í gærkveldi.  Á mörgum stöðum hringja líka kirkjuklukkurnar á mærum tveggja ára og minna á að árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.

Það fylgir því viss tregi að kveðja ár en að sama skapi býr viss eftirvænting í huga og hjarta vegna hins nýja árs og þess sem það færir.  Í huga margra er fyrirheit um betra og gjöfulla líf en hvað boðar nýjárs blessuð sól er enn hulið þó við vonum og biðjum að árið verði gott og gefandi.

Áramót eru ekki tímamót.  Það eina sem breytist er að við þurfum að venja okkur á að skrifa nýtt ártal og auðvitað að þreyja þorrann og góuna sem var ekki alltaf auðvelt hér áður fyrr þegar húsakynni voru köld og tæknin lítil sem engin heldur þurfti að reiða sig á verksvitið og fyrirhyggjuna.

Lífstaktur sveitarinnar þar sem verkin tilheyrðu árstíðunum er ekki sá lífstaktur sem slær í daglegu lífi okkar flestra.  Hraði lífsins er óstöðvandi þar til eitthvað utanaðkomandi hægir á honum eða stoppar hann.

Guðspjall þessa fyrsta dags ársins er aðeins 3 vers úr Jóhannesarguðspjalli.  Jesús hafði gert sitt fyrsta kraftaverk, að breyta vatni í vín í brúðkaupsveislu einni.  Hann hafði líka hrundið við borðum víxlaranna sem skiptu peningum þeirra sem komu í musterið svo þau gætu greitt fyrir fórnardýrið með réttri mynt. Fólk undraðist verk þessa manns og sumir fóru að trúa á hann.  Það var ekki vel liðið af ráðamönnum þess tíma því þá eins og nú vildu menn ekki missa völd sín.  Frá því segir guðspjallamaðurinn einnig í riti sínu með þessum orðum:  „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum við að gera? Þessi maður gerir mörg tákn. Ef við leyfum honum að halda svo áfram munu allir trúa á hann og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm okkar og þjóð.“

Biblían geymir visku kynslóðanna. Visku sem þær hafa safnað saman í það rit sem við köllum í dag Biblíuna. Biblían er safn af bókmenntaverkum, með hreint mögnuðu innihaldi, smásögum, ljóðum, heilræðum, mannkynssögu, sögu þjóðar, sögu einstaklinga.  Þessar sögur hafa gagnast vel í lífsins ólgusjó og ættu enn að vera hluti af námsefni hvers barns eins og áður fyrr.

Margir eru í leshring eða bókaklúbbi.  Hvernig væri að lesa einhverja bóka Biblíunnar í slíkum félagsskap.  Umræðurnar yrðu örugglega fjörugar.  Lestur á bókum Biblíunnar getur síðan opnað manni heim sem frelsar, líknar og veitir lausn, þegar við nálgumst ritin með augum trúarinnar og lifum í samræmi við þá trúarreynslu, sem lesturinn getur veitt.

Nú þegar við höfum áhyggjur af móðurmálinu íslensku, hvort hún verður hér áfram töluð um alla framtíð, megum við minnast þess að þýðing Biblíunnar og útgáfa hennar árið 1584 hafði þau áhrif að tungumálið varðveittist eins og raun ber vitni.  Sá viðburður er ef til vill ástæða þess að enn erum við nefnd bókaþjóð og Alþingi hefur nýverið samþykkt frumvarp um stuðning við bókaútgáfu á íslensku til að svo megi áfram verða.  Orðfæri Biblíunnar hefur haft mikil áhrif á íslenskt mál og hefur orðtökum á íslensku sem má rekja til Biblíumáls verið safnað saman í bók Jóns G. Friðjónssonar.

Manneðlið er samt við sig hvort heldur árið er 2 eða 2000.  Í menntaskóla las ég bókina 1984 eftir George Orwell.  Þar er framtíðarsýnin ógnvænleg þegar fylgst er með hverju fótmáli borgaranna.  Ekki grunaði okkur unglingana fyrir vestan að slíkt tilheyrði raunveruleikanum eftir nokkra áratugi. Nú er búið að setja reglur um persónuvernd á sama tíma og allt á að vera upp á borði eins og það er orðað.

Margt má betur fara í heimi hér.  Enn eru þjófar að verki sem taka ófrjálsri hendi það sem þeir telja verðmætt á heimilum manna.  Fólk býr við fátækt hér á landi og húsnæðisekla er fyrir hendi.  Menn fela staðreyndir til að tapa ekki fjármunum eins og fyrirtækið Johnson og Johnson sem framleiddi asbestmengað púður sem foreldrar ungbarna víða um heim hafa í áratugi notað á börnin sín.  Enn eru þúsundir á flótta í heiminum og bíða úrskurðar um framtíð sína.  Þar gilda reglur sem oft eru ekki byggðar á miskunnsemi.  Ungt fólk er í heljargreipum fíknar og ástvinir þeirra vanmáttugir.  Minnumst þess að hvert líf er mikils virði og hefur tilgang.

Fréttir af hryðjuverkum og skotárásum berast einnig. Mikið er talað um að byggja þurfi upp og styrkja innviðina og ekki veitir af að bæta samgöngur og fjarskipti til að byggð haldist í landinu öllu. Það er verk að vinna víða sem bæta mun líf fólks og efla samfélagskennd.

Þjóðkirkjan er hluti af stærri heild kristinna kirkna víðs vegar um heiminn.  Eftir síðari heimsstyrjöldina áttuðu kristnir menn sig á þörfinni fyrir að standa saman.  Árið 2017 hélt Lútherska heimssambandið upp á 70 ára afmæli sitt og minntist einnig 500 ára afmælis siðbótarinnar.  Þau hátíðarhöld hófust formlega með sameiginlegri bænastund Frans páfa og fulltrúum lúthersku kirkjunnar.  Sameinuð í bæn í fyrsta skipti í 500 ár.   Í lútherska heimssambandinu eru 148 kirkjur í 99 löndum og er meðlimafjöldinn rúmlega 75 milljónir. Á síðasta ári var þess minnst að 70 ár voru frá stofnun Alkirkjuráðsins.  Árið 2017 heimsótti græni patríarkinn, yfirmaður orþódoxu kirkjunnar landið í tengslum við ráðstefnu um réttlátan frið við jörðina.  Nú hefur hann veitt einni af kirkjum sínum, rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu sjáfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.  Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.

Þjóðkikjan er til eins og aðrar kristnar kirkjur vegna þess erindis sem hún flytur.  Fagnaðarerindi Jesú Krists byggir á kærleika til Guðs og manna og allrar sköpunarinnar.  Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins.  Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls.  Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.

Siðferðileg mál koma oft upp í opinberri umræðu.  Rætt hefur verið um það hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað.  Alþingismenn glíma við siðferðileg álitamál þegar setja þarf lög eða breyta þarf lögum eins og til dæmis þegar fjallað er um líf og lífslok.  Það er þörf á að allir vandi sig, hlusti á og virði ólík sjónarmið og að almenningur leggi sitt að mörkum og taki þátt í umræðunni.

Þjóðkirkjan er með þjónustunet um allt land og eru þjónar kirkjunnar til taks þegar á þarf að halda.  Á ferðum mínum í sóknir landsins mæti ég hinni eiginlegu kirkju sem er fólkið í kirkjunni.  Fólkið sem unnir sinni sóknarkirkju og er þakklátt fyrir þá þjónustu sem kirkjan veitir.  Sú kirkja mætti oftar vera í kastljósi miðlanna.  Sú kirkja biður og þakkar, fræðir og boðar, veitir sálgæslu og stuðning og gengur veginn fram með þeim sem þess óska.  Sú kirkja boðar trú, von og kærleika. Þjóðkirkjan er ekki eitt af mörgum trúfélögum í landinu.  Hún nýtur sérstöðu sem þjóðkirkja og því fylgja þjónustuskyldur sem trú- og lífsskoðunarfélög bera ekki.

Við hefjum gönguna inn í nýtt ár með von í brjósti.  Von sem felur í sér umbreytandi og endurnýjandi kraft. Vonina sem býr í kristinni trú sem getur breytt sýn okkar á líðandi stund og framtíð samfélagsins.  Barnið sem við fögnum nú á jólum er frelsarinn því hann frelsar frá því sem meiðir og deyðir til þess sem gleður og nærir.  Hann lætur okkur líta á lífið með augum trúarinnar.  Hvað þýðir það?  Það mætti orða það þannig að sjóndöpur manneskja sér óskýrt, en ef hún lætur gleraugu upp sem miðuð eru við sjón hennar, þá sér hún skýrt og tekur jafnvel eftir því sem augun sáu ekki áður.  Þannig lætur trúin okkur sjá allt í nýju ljósi, með nýjum augum og það gerist þegar við breytum hugarfari okkar og tökum tilliti til annarra og hugsum út frá því að við erum ekki ein í heiminum.  Það verður allt nýtt ef hugsunin breytist.

Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem.  Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir.  Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni.  Yfir því vakir almáttugur Guð sem er tilbúinn til að gefa fleiri tækifæri, tilbúinn til að fyrirgefa og tilbúinn til að hjálpa okkur að berjast trúarinnar góðu baráttu.

Prófessor Þórir Kr. Þórðarson heitinn skrifaði grein um lífsgildið og börnin og sagði m.a.:  „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu.  Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.

Vér Íslendingar getum séð átökin milli árásarhneigðar og ofstopa annars vegar og mildi kristins siðar og viðhorfa hins vegar í Sturlungu.  Og raunar tvinnast þetta tvennt í sálarlífi allra manna – og barna – sem á annað borð eru „eðlilegir“ einstaklingar:  krafturinn, árásarhneigð honum samfara, og þörfin fyrir ástúð og kærleika.“

Það urðu tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum og tilkynnti ákvörðun sína um að hér á landi skyldu ríkja ein lög og einn siður.  Þessi siður, hinn kristni hefur mótað samfélagið alla tíð.  Umræða nútímans um kirkju og kristni bendir til nokkurs áhuga á umræðuefninu.  Sem betur fer ríkir trúfrelsi í landinu og hægt að skrá trú- og lífsskoðunarfélög hjá hinu opinbera.  Viss skilyrði verður að uppfylla samkvæmt lögum til að það sé hægt.  Þess vegna vekur það undrun að félag sem ekki virðist hafa uppfyllt skilyrðin hafi verið skráð og þar með öðlast réttindi sem lögin veita.

Það urðu líka tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918.  Við minntumst aldarafmælis þess árið 2018 með ýmsum hætti og gerðum okkur betri grein fyrir því hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.

Ábyrgð fylgir öllum gjörðum og byrðar geta einnig verið þungar. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ segir Jesús. Það er gott að vita það að byrðum hins nýja árs sem vonandi verða ekki þungar megum við varpa frá okkur til hans sem kom í heiminn til að létta okkur lífið og leyfa okkur að treysta á sig í blíðu og stríðu. Í trausti þess göngum við inn í hið nýja ár með þakklæti í huga og von í brjóti.

Ég þakka samstarfsfólki mínu hér í Dómkirkjunni og annarsstaðar fyrir samfélagið á árinu sem var að kveðja og bið Guð að blessa ykkur og allt ykkar.

„Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár“ orti sr. Matthías forðum.

Við þökkum fyrir árið 2018 og biðjum þess að á nýju ári megum við ganga í ljósi Guðs svo við berum endurskin þess.  Við biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og gefa að nafn hans verði yfirskrift lífs okkar.

Gleðilegt ár í Jesú nafni.

 

Ljós í myrkri

Prédikun í Dómkirkjunni á jóladag 2018: Jes. 62:10-12; Tít. 3:4-7; Lúk. 2:15-20.

Við skulum biðja:
Guð, sem ert ljós í myrkri. Þetta er dagurinn sem þú hefur gjört. Dagur hinnar miklu gleði. Þú kemur á móti okkur þar sem við þreifum okkur áfram í dimmunni, og lætur okkur sjá í Jesú Kristi fagnaðarboðskap til handa heiminum öllum og ljós huggunarinnar fyrir augum okkar að eilífu. Amen.

Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég var að tala við lítinn dreng nýverið. Hann var upptekinn af komu jólasveinsins um nóttina því hann vonaðist eftir ákveðinni gjöf í skóinn. Hann hafði skrifað jólasveininum bréf um óskir sínar. Ég spurði hann svo af hverju við værum að halda jól og hann svaraði að bragði að það væri vegna gjafanna. Ég fékk þá tækifæri til að fræða blessað barnið um gjöfina einu og sönnu sem mannkyni hefði gefin verið þegar Guð sendi son sinn í heiminn í litlu umkomulausu barni og gjafir okkar til hvers annars væru vegna þess.

Boðskapur jólanna er aðalatriðið. Allt sem við gerum og undirbúum okkur fyrir á aðventunni byrjar og endar í þessum boðskap sem fátækir hirðar fengur fyrstir að heyra þegar þeir gættu hjarðar sinnar á Betlehemsvöllum.

Í gærkveldi heyrðum við lesna frásögu Lúkasar um það þegar Ágústus keisari sem ríkti um 40 ára skeið frá 27 fyrir Krist til 14 eftir Krist sendi út boð um að allir þegnar landsins yrðu að láta skrásetja sig og fara hver til sinnar borgar í þeim tilgangi. Þess vegna fóru Jósef og María til Betlehem þar sem María varð léttari og dýrð Drottins kom til jarðar.

Hirðar gættu hjarðar sinnar á Betlehemsvöllum um nótt. Skyndilega lýstist allt upp og himinn og jörð mættust. Þeim brá eðlilega við þessi umskipti. Frammi fyrir þeim stóð engill sem sagði þeim að vera ekki hræddir því mikilvæg boð bærust þeim fyrstum manna, boð að frelsari væri fæddur í Betlehem.

Í gærkveldi heyrðum við líka frásögu Jóhannesar guðspjallamanns af því þegar Guð kom í þennan heim, Orðið varð hold eins og Jóhannes orðar það. Hann segir ekki frá því hvað gerðist eins og Lúkas heldur hvers vegna.

Í dag höfum við heyrt framhald sögu Lúkasar, frásöguna af viðbrögðum hirðanna sem fóru til Betlehem og litu barnið augum, horfðu í augu þess og skýrðu frá reynslu sinni þessa nótt.

Yndisdrengurinn sem var upptekinn af jólasveininum og heimsókn hans um nóttina veit hvaða jólasveinn kemur næstu nótt. Hann kann á þeim nöfnin og veit röðina frá þeim fyrsta til hins síðasta. Það er gaman að heyra hann þylja það upp því ekki man ég það. Hirðarnir höfðu heyrt aðrar sögur. Þeir höfðu heyrt spádómana um friðarhöfðingjann sem myndi reisa ríki þeirra og efla það með réttvísi og réttlæti. Konunginn sem myndi leysa landið og þjóðina undan yfirráðum erlends valds. Þjóð þeirra hafði um aldir beðið eftir þessum konungi. En það er ekki líklegt að þeir hafi verið að hugsa um þessa spádóma einmitt þarna úti í haganum enda brá þeim við þessa himnesku heimsókn.

Þeir fóru og sáu og sögðu frá reynslu sinni. Þeir fóru til Betlehem og sáu að raunveruleikinn í kringum fæðingu barns var ekki blómum prýddur. Þessi konungur fæddist ekki í höll, þó hans hafi verið leitað í höll í Jerúsalem af vitringunum frá Austurlöndum. Þeir héldu að konunginn væri að finna í höll í höfuðborginni, en ekki í gripahúsi í minnstu héraðsborg Júda. Þeir fundu hann heldur ekki á hátæknisjúkrahúsi eða á fæðingarheimili, ekki einu sinni í heimahúsi, heldur í fjárhúsi. Það er táknrænt að litli drengurinn skyldi vera borinn þar og lagður í jötu eins og lömbin því síðar var hann oft nefndur lamb Guðs. Honum var líkt við fórnardýrið sem slátrað var til að friðþægja fyrir syndirnar.

Í fjárhúsinu fundu hirðarnir barnið og móður þess sem hugleiddi orð hirðanna. Vissi hún meira en aðrir um þetta barn? Hún hafði jú gengið með það, fundið spörk þess og hreyfingar í kviði sínum, fætt það með þrautum væntanlega eins og aðrar mæður og lært að vera óhrædd, samkvæmt boði engilsins forðum. Hún hafði ákveðið að treysta Drottni fyrir lífi sínu og mannorði. Hún hafði sungið Guði lof þegar hún vissi að hún bar son Guðs undir belti. „Önd mín miklar Drottinn“ hafði hún sungið og einnig: „Því að mikla hluti hefur hinn voldugi við mig gjört, og heilagt er nafn hans“. Þessar minningar átti hún og þessa reynslu átti hún ein þegar hirðarnir vitjuðu litlu fjölskyldunnar í fjárhúsinu í Betlehem. Og hún María hefur örugglega tengt alla þessa vitneskju sína og reynslu við það sem hirðarnir sögðu viðstöddum.

Barnið Jesús fæddist inn í heim sem var eins og nú átakaheimur. Þar er ljós og þar er myrkur. Þar er hið góða, fagra og fullkomna eins og í litla barninu og þar er illska, hatur, óréttlæti, ófullkomleiki. Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hinna smæstu – en á hinn bóginn er myrkrið sem fylgir hinum grimma leiðtoga, sem svífst einskis í valdafíkn sinni skammt undan. Heródes heitir þessi leiðtogi í guðspjalli Mattheusar. Nú til dags ber hann önnur nöfn og í gegnum sögu mannkyns eru þó nokkrir Heródesar og Heródesarsinnar. Hver kynslóð berst við ofurefli að einhverju leyti. Andstæðurnar eru miklar. Ríkidæmi, fátækt. Ljós, myrkur. Fegurð, óhugnaður, virðingarleysi.

Ég trúi því að allt fólk vilji innst inni vera þar sem ljósið skín og fegurðin ríkir. En því miður er ekki svo um alla. Sennilega villumst við öll af leið með einum eða öðrum hætti einhvern tímann á lífsleiðinni en sem betur fer komast flestir aftur á bataveginn. Lífsreynslan mótar okkur og getur verið sár og erfið en jafnvel sársauki og erfiðleikar geta hjálpað okkur að sjá ljósið ef við vinnum á jákvæðan hátt úr þeim aðstæðum. Sum lífsreynsla er sjálfskaparvíti, önnur vegna samspils við annað fólk, enn önnur vegna manna eins og Heródesar sem skipa fólki fyrir. Fólk sem býr þar sem einræðisherrar stjórna á sér ekkert val nema um að bjarga lífi sínu eða deyja. Þess sjáum við dæmi í heimi hér til dæmis þar sem fólk hefur þurft að yfirgefa landið sitt til að halda lífi. Lífið er fullt af andstæðum og hver lífssaga kennir okkur margt þó sagt sé að enginn læri af annarra reynslu.

Ábyrgð fjölmiðla er mikil en þeir koma á framfæri upplýsingum sem fjölmiðlafólkið telur að eigi erindi við almenning. Nú geta allir verið fjölmiðlamenn og konur. Geta komið upplýsingum til almennings á örskotsstundu á samfélagsmiðlunum. Hirðarnir hefðu ábyggilega sett myndir á Instagram, tíst á Twitter eða sagt frá á Facebook ef það hefði verið til fyrir 2000 árum um reynslu sína og ferðalag til Betlehem. Þegar þeir komu þangað sögðu þeir frá því sem þeim hafði verið sagt um barnið. Hver voru fyrstu viðbrögð viðstaddra? Það var undrun. Viðstaddir undruðust, allir nema ein kona, móðirin María sem hafði nýfætt son sinn í heiminn. Hún undraðist ekki enda hafði hún þá sömu reynslu að fá heimsókn engils sem flutti henni ótrúleg tíðindi.

Öll ferðalög taka enda. Líka ferðalagið til Betlehem frá völlunum þar sem hjörðin beið hirða sinna. Hirðarnir snéru aftur til vinnu sinnar og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð og sannreynt að það sem engillinn sagði þeim var allt rétt og satt.

Frásagan um kraftaverkið mikla þegar Guð gerðist maður, hugur Guðs tók sér bústað í mannlegu holdi er enn að gerast vegna þess að hver sá eða sú sem meðtekur boðskapinn og fær að reyna að trúin bjargar og blessar verður ekki samur eða söm á eftir. Skyldu hirðarnir hafa verið samir á eftir? Viðbrögð þeirra við jötuna, að lofa Guð, benda til þess að eitthvað hafi breyst innra með þeim.

Þegar ég var barn á Ísafirði var Hjálpræðisherinn starfandi þar í bæ. Á aðventunni stóðu hermennirnir niðri við Bókhlöðu með bauk á þrífæti hvar á stóð „hjálpið okkur að gleðja aðra“. Einnig seldu þeir blaðið sitt Herópið. Enn þann dag í dag fæ ég gott í hjartað eins og ein vinkona mín orðar það þegar góðar minningar brjótast fram þegar ég sé hermennina selja Herópið fyrir jólin. Nú er það reyndar ekki selt fyrir ákveðna upphæð heldur er frjálst framlag. Í blaðinu sem kom út fyrir þessi jól er viðtal við mann sem er samherji í Hjálpræðishernum á Akureyri. Hann segir frá því þegar hann ákvað að gefi Guði tækifæri eins og hann orðar það. „Þá öðlaðist ég líf í fullri gnægð. Líf mitt hefur tilgang, ég hef öðlast frið, líf mitt er í rauninni bara rosalega fallegt og bjart í dag. Ég þarf ekkert nema Guð og ég treysti honum fullkomlega.“

Litli drengurinn sem hélt að jólin væru vegna gjafanna en ekki gjafirnar vegna jólanna vill vita meira um Þór er Jesú. Þór á flottan hamar sagði hann. Hvernig veit hann það? Jú, vegna þess að í einhverjum Legó leik sem ég man ekki hvað heitir er Þór með hamarinn sinn. Hans heimur er annar en minn og minnar kynslóðar og ég bið þess að hann og hans kynslóð geti líka átt fallegt líf og bjart eins og samherjinn sem var í viðtali í Herópinu. Drengurinn vildi ekki fara í kirkju á jólum en faðir hans og fólkið hans tók ekki annað í mál og auðvitað sat drengurinn prúður í kirkjunni. Börnin læra það sem fyrir þeim er haft og engin ástæða til að gefa það eftir sem leiðir þau á farsælar brautir í lífinu.

Hirðarnir snéru aftur breyttir menn og það gerum við öll sem fáum að líta barnið með einum eða öðrum hætti. Guð vitjaði hirðanna forðum og sendi engla sína með boðskapinn til þeirra. Hann gerði ekki boð á undan sér nema að leyfa þeim að heyra spádómana um barnið sem yngismær myndi ala og láta heita Immanúel. Móttökutæk hirðanna var í lagi vegna þess að þeir höfðu heyrt spádómana. Eins er með börnin og hvern þann einstakling sem Guð vitjar. Sé einhver minnsta von um að stillt sé á rétta bylgjulengd, jafnvel þó hún sér brengluð í hlustun, þá er von til þess að viðkomandi skynji hið heilaga þegar það birtist og talar. Að sjá og heyra hin himnesku boð er reynsla sem lætur engan ósnortinn.

Fæðing Jesú markar tímamót í sögu mannkyns og við hana er tímatal okkar miðað. Hið sama gerist í lífi þess er heyrir boðskapinn og geymir hann í hjarta sínu eins og María forðum.

Megi boðskapur jólanna, kærleikurinn sem þau boða standa hjarta okkar nær og láta okur bera hann áfram til samferðamanna okkar. Gleðileg jól í Jesú nafni.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.

Gleðileg jól

Prédikun flutt við aftansöng í sjónvarpi á aðfangadagskvöld 2018.

Við heyrðum jólaguðspjall Lúkasar lesið frá altarinu áðan. Heyrum nú jólaguðspjall Jóhannesar sem skrifað stendur í 1. kafla ritsins:

Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.

Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.

Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.

Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Þannig hljóðar hið heilaga orð.

Nú syngur kórinn jólasálm eftir Jórunni Viðar en í ár er liðin ein öld frá fæðingu hennar.

Gleðilega hátíð ljóss og friðar. Gleðileg jól. Hversu oft höfum við ekki heyrt þessa kveðju síðast liðna daga þegar við hittum kunningja og vini. Jólin flytja okkur fagnaðarboðskap sem hittir okkur misjafnlega fyrir eftir því hvar við erum stödd á lífsins vegi. Hjá mörgum er lífið á svipuðum stað og fyrir ári, hjá öðrum hafa orðið breytingar. Hjá einhverjum hafa breytingarnar orðið til léttis og gleði, hjá öðrum hafa þær skapað söknuð og/eða erfiðleika.

Jólaguðspjallið er lesið ár eftir ár en hittir okkur fyrir á mismunandi tímum í lífshlaupi okkar. Margar sögur Biblíunnar eru myndrænar á meðan aðrar frásögur eru það ekki. Frásögur guðspjallamannanna tveggja af fæðingu Jesú eru ólíkar. Lúkas segir frá atburðinum sjálfum, fæðingu barnsins hennar Maríu, Jóhannes segir frá því hvað sá atburður merkir og hvað Guð meinar með honum. Nauðsynlegt er að þekkja upphafskafla Biblíunnar til að skilja þessi orð. Í upphafi er orðið sem skapar heiminn. Allt byrjaði þannig að Guð kallaði ljós og líf inn í heiminn með orði sínu. Guð sagði og það varð.

Hvernig svo sem jólin sækja okkur heim þá eru þau tákn um það besta sem lífið gefur. Við sem höfum allt til alls biðjum þess að aðrir njóti þess sama og við. Við gleðjumst yfir fjölskyldusamverum, fallegum skreytingum og ljósum, heyrum fallega og gefandi jólatónlist, finnum lykt sem við tengjum jólunum. Við biðjum þess einnig að allir geti lifað við góðar aðstæður og í friðsömu umhverfi. Jólin laða fram það besta í fari manna. Við óskum hvert öðru gleðilegra jóla.

Um heim allan er fæðingu barnsins minnst og sunginn jólasálmurinn þekkti heims um ból, helg eru jól, eða hljóða nótt, heilaga nótt. Á aðventunni sótti ég tónleika. Þar voru sungin jólalög frá ýmsum löndum. Ég veitti ekki athygli fólkinu sem sat fyrir framan mig fyrr en í síðasta laginu en þá fór kórinn aftast í kirkjuna og gekk fram um leið og þau sungu Heims um ból. Þá snéri fólkið sér aftur til að sjá kórinn og úr andlitum þeirra skein gleði því þessir erlendu ferðamenn þekktu sálminn góða þó ekki hafi þau skilið textann. Heims um ból vekur með okkur góðar tilfinningar jafnvel þó hann sé sunginn á tungumáli sem við skiljum ekki.

Á dimmri nóttu bárust boð: “Yður er í dag frelsari fæddur.” Þessi boðskapur er ætlaður öllum mönnum en hver og einn ræður því hvort hann eða hún meðtekur boðin. Þegar við heyrum eða sjáum auglýsingar þá tökum við þær ekki til okkar nema við séum að leita eftir því sem auglýsingin býður. Þannig er það líka með boðskap sem við heyrum. Við hlustum eftir því sem okkur vantar eða viljum fræðast um, annars fer hann fram hjá okkur. Við erum móttækilegri fyrir boðskapnum ef við þráum að auðga líf okkar.

Þeir eru ólíkir jólaguðspjallstextarnir hjá Lúkasi og Jóhannesi. „Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð” segir Jóhannes í guðspjalli sínu. Hver er merking jólanna spyr Jóhannes guðspjallamaður. Hvað er jólaguðspjall Lúkasar að flytja? Hvers vegna er það gleðiboðskapur að barnið fæddist. Svar guðspjallamannsins er: Orðið varð hold og blóð. Orðið varð maður. Guð talar í verki, lætur verkið tala. Orðið sem skapaði heiminn er fætt á jörð. Orðið sem byrjaði lífið með því að segja: Verði ljós. Ekki ljós sólar eða skin tungls, því að sól og tungl skapast síðar. Hvaða ljós skapaði hann þá fyrst? Er það ekki ljóst, að án sólar er ekkert ljós?

“Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn“ segir Jóhannes í guðspjalli sínum. Hann er að tala um ljós kærleikans. Það kemur fyrst, á undan sólinni. Það ljós, ljós kærleikans fellur á alla sköpun Guðs og er mikilvægast allri sköpuninni.

Þegar barn fæðist sér það hvorki né skynjar ljósið í veröldinni. En barninu skín ljós frá kærleika sinna nánustu. Það lifir í birtunni frá elskandi andlitum foreldra sinna og ástvina. Öll börn ættu að alast upp við góðar aðstæður og lifa í þessu ljósi. Þá lifir barnið við öryggi kærleikans sem það finnur og nýtur. Þetta er það besta sem barnið mætir. Því miður búa ekki öll börn við góðar aðstæður í heimi hér. Ytri aðstæður eru misjafnar en öll börn ættu að alast upp í ljósi kærleikans. Það uppeldi er ekki mælt á veraldlega vísu heldur ræður þar hjartalagið sem er ókeypis. Öll börn ættu að eiga greiðan aðgang að fagaðilum sem hjálpa foreldrunum að finna leiðir til lausnar ef eitthvað má betur fara eða þörf er á úrræðum sem auðvelda líf fjölskyldunnar. Tvö ár í lífi barns er langur tími. Það er allt of langur biðtími fyrir barn og foreldra þegar eitthvað bjátar á.

“Augað er lampi líkamans. Sé auga þitt heilt mun allur líkami þinn bjartur” segir Jesús. Ljós berst augum okkar, en ljós berst einnig frá augunum. Augu okkar ljómar þegar við horfum á eða hugsum um það sem við elskum.

Auglit Guðs er yfir jörðinni sem hann hefur skapað. Guð leit það sem hann hafði skapað og “sá að það var gott” segir í sköpunarsögunni. Í blessunarorðunum sem prestur lýsir í lok messu eða við aðrar kirkjulegar athafnir þá segir hann: “Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig. Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig”. Ljósið og birtan sem Guð gefur fylgi þér út í heiminn og lýsi þér hvert sem þú ferð.

“Þér er í dag frelsari fæddur” segir Lúkas í guðspjalli sínu þegar hann segir frá atburðinum sem átti eftir að breyta sögu mannkyns. Jóhannes talar á öðrum nótum um sama atburð. “Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.“ Með öðrum orðum segir guðspjallamaðurinn: Ásjóna Guðs, lýsandi kærleikur Guðs er orðinn maður.

Þetta er það sem gerðist nóttina sem hirðarnir sátu úti í haga og gættu hjarðar sinnar. Ljós skín í myrkrinu sem lýsir allt upp. Við eigum orð með sömu rót, upplýsing og auglýsing. Grunnmerking þeirra er sú að þegar tiltekin vitneskja er fengin þá lýsir hún veröldina upp.

“En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá” segir Lúkas í sínu guðspjalli þegar hann beinir sjónum að hirðunum sem fyrstir fengu að heyra tíðindin. Jóhannes segir okkur í sínu guðspjalli frá eiginleikum Guðs “Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu” “Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.”

Þannig er Guð, fullur náðar og sannleika. Frummerking orðsins sannleikur á grísku þýðir augnablikið þegar tjaldið er dregið frá því sem var hulið. Þegar ljós rennur upp fyrir mönnum. Það merkja jólin. Þegar sannleikurinn kemur í ljós. Þessi sannleikur hefur runnið upp fyrir fólki mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð og allt til okkar dags. Hann mótar lífsafstöðu sem er lýst upp af ljósi kærleikans. Sú lífsafstaða hefur mótað samfélag okkar og verður á þessum árstíma í aðdraganda jóla og um jól, lifandi og virk til blessunar fyrir þann sem þiggur og þann sem gefur. Því miður er það ekki svo að ljósið hafið náð að ryðja andstæðu sinni, myrkrinu, burt. Enn er myrkur í heimi hér sem birtist í ófriði, ofbeldi og margskonar sársauka, enda segir Jóhannes í guðspjalli sínu “Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.”

Á jólum erum við minnt á þá stærstu gjöf sem mannkyni hefur gefin verið. Ljós kærleikans sem lýsir upp tilveruna og líf hvers manns sem meðtaka vill. “Yður er í dag frelsari fæddur”. Barnið er ekki aðeins foreldranna heldur allra þeirra er kjósa að gera það að sínu og leyfa því að hafa áhrif á lífsafstöðu sína. Sú lífsafstaða byggist ekki eingöngu á því að fara eftir því sem barnið sagði og gerði í lífi sínu heldur ekki síður í því að við játum að barnið sé Guð með okkur og við séum hans í lífi og í dauða.

Á jólum komumst við sennilega næst því að gera heiminn fullkominn. Við lýsum upp, skreytum og hugsum fallega til hvers annars. Því miður er heimurinn ekki þannig alla daga. Það er margt vont til í heiminum en gleðiboðskapurinn er sá að þrátt fyrir það og vegna þess kemur Jesús í heiminn. Þennan heim sem Guð skapaði með orði sínu og leit yfir og sá að var harla góður. Sagan um sköpun heimsins og frásaga Jóhannesar guðspjallamanns kallast á. “Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum” segir einnig í guðspjallinu.

Því miður er það svo að við mannfólkið erum ekki alltaf tilbúin að taka við honum, barninu í jötunni sem hirðarnir fengu boðin um að fæddur er. En okkur stendur það til boða nú og alltaf. Við lítum á börnin okkar og elskum þau eins og þau eru og viljum að þeim líði vel og njóti lífsins. Það er sárt til þess að vita að mörg börn hér á landi eru haldin kvíða og vanlíðan. Guð lítur á okkur eins og foreldrar á börn sín. Guð elskar okkur og sér okkur í ljósinu sem kom í heiminn og í því hvernig við tökum á móti því ljósi. Fyrsta ljósið sem barnið lítur er kærleiksljósið frá foreldrunum og sínum nánustu. Orðin sem sögð eru við skírnarlaugina verka í lífi skírnarþegans. Héðan í frá eru mitt barn segir Jesús.

Guð kom til mannanna. Hann sá og lifði lífinu sem maður. Gladdist og hló, harmaði og grét, deildi kjörum með öðrum og fór ekki í manngreinarálit. Hann gaf fólki nýja von og nýja trú á sigur lífsins þrátt fyrir myrkur og böl.

Trump, Pútin, May eða Merkel eiga ekki síðasta orðið og draga ekki huga okkar til sinna heimshluta núna. Heldur er það bærinn Betlehem, brauðhúsið, sem er miðja alheimsins á jólum. Þessi litli bær á Vesturbakkanum sem þúsundir sækja heim ár hvert til að líta á fæðingarstað frelsarans. Jólin safna okkur saman þangað. Vald þeirra sem ráða og stjórna er ekki það mesta eða sterkasta heldur er hið minnsta og viðkvæmasta, lítið barn, sterkara en allt. Sá sigrar sem elskar mest. Hver hefur elskað meira en Guð, sem sendi son sinn Jesú Krist í heiminn til þess að enginn myndi deyja að eilífu?

Þess vegna óskum við hvert öðru gleðilegra jóla og þess vegna getum við átt gleðileg jól. Gleðileg jól, í Jesú nafni. Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.