Hið nýja sem kemur og grær

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Hvar stöndum við, hvert viljum við stefna?  Hver er grundvöllur lífs okkar?  Hvernig er samfélagssáttmálinn?  Þessar og viðlíka spurningar hafa undanfarið brunnið á vörum okkar sem hér búum.  Allt er breytingum háð og það sem var og er hefur verið tekið til endurskoðunar.  Það er sama hvar borið er niður, allt virðist undir smásjá.  Ef marka má orðræðuna þá er sem engu sé treystandi, hvorki mönnum né náttúruöflum.  Traust og ótti eru andstæð hugtök, en tengjast þó því þar sem mikið traust ríkir er lítill ótti en þar sem mikill ótti er þar er lítið traust.

Áðan heyrðum við lesið úr fjallræðunni svo kölluðu í Matteusarguðspjalli.  Söguna um húsin tvö, annað sem byggt var á sandi og hitt sem byggt var á bjargi.  Sagan er kunn en hún er framhald, næstum samantekt á því sem áður er sagt í fjallræðunni.  Fjallræðan hefur að geyma meginatriðin í siðakenningu Jesú þar sem hann kemur fram með nýtt og mikilvægt viðhorf.  Í deilum leggur hann til að andstæðingurinn sé afvopnaður með viðhorfi sem er laust við hatur og fullt sáttfýsi í því skyni að losna úr vítahring ofbeldis og hefnda.

Fjallræðan hefst á svokölluðum sæluboðum.  Þeim er beint að lærisveinum Jesú sem hvetur þá til að bogna ekki andspænis mótlæti sem þeir geta mætt vegna trúar sinnar.  Hann örvar þá til að hlaðast nýjum krafti.  Til að lífið öðlist bragð og birtu þarf hver lærisveinn sjálfur að vera salt og ljós.   Að lifa eftir vilja Guðs merkir fyrst og fremst að breyta um hugarfar.

Í fjallræðunni eru perlur sem margir kannast við eða þekkja.  Þar eru t.d. orðin um að við eigum ekki hafa áhyggjur af morgundeginum, því hann hafi sínar áhyggjur.  Og þar er gullna reglan sem hvetur okkur til að líta í eigin barm áður en við aðhöfumst gagnvart öðrum.

„Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi.“ „En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi.“

Hér er áhersla á breytnina.  Það er ekki nóg að heyra orðin og vilja fara eftir þeim. Það á að breyta eftir þeim.  Hygginn er sá sem það gerir.

Enginn þekkir fyrirfram þau illviðri sem geta átt eftir að mæta honum í lífinu. Jesús leggur áherslu á að sá sem vilji grundvalla traust líf skuli reisa það á óhagganlegum kletti, það er orði Guðs, sem sé meðtekið, íhugað og eftir því breytt.

Við leitum að nýjum nálgunum á öllum sviðum samfélagsins.  Það hefur ekki gengið sérstaklega vel að finna hið nýja enda er sagt að ekkert sé nýtt undir sólinni.   Kærleiksboðskapur kristinnar trúar á enn erindi við íslenskt samfélag.  Það á við um orð og verk.  Þau gildi sem kallað er eftir eru þau gildi er fram koma í Biblíunni og höfð hafa verið í heiðri hér á landi í þúsund ár.  Þau byggjast á trú, von og kærleika.  Það þarf ekki að leita langt yfir skammt að hinu nýja ef betur er að gáð. Iðkun trúarinnar á forsendum kærleikans eykur félagsauð og bætir samfélagið.

Guðfræðin getur lagt mikið til samfélagslegrar umræðu eins og aðrar fræðigreinar.

Misjafnar eru aðstæður í heimi hér.  Á sléttunum í Malaví í sunnanverðu landinu býr fólk við fábrotnar aðstæður.  Íslendingar hafa lagt þeim lið meðal annars með því að koma upp vatnsbrunnum í þorpunum.  Fólkið kann að gleðjast og tekur á móti gestum með söng og dansi, þó aðallega konurnar.  Á vef hins íslenska Biblíufélags má lesa um mikla gleði fólks á þessum slóðum nú.   Konur og börn dönsuðu af gleði. Þetta trúaða fólk hafði safnast saman til þess að fagna afreki, sem lengi verður í minnum haft; Nýja testamentið var loksins aðgengilegt á hjartkæru tungumáli þeirra, lambya.“

Nú má lesa fjallræðuna sem og annað í Nýja-testamentinu á þeirra tungumáli.  Okkar þjóð er ein sú fyrsta í heiminum sem eignaðist Nýja-testamentið á eigin tungu og stuttu síðar alla Biblíuna.  Það hefur haft mikil áhrif hér á landi meðal annars hvað tungumálið íslensku varðar.  Úr biblíumáli eru komin mörg orðatiltæki sem enn eru notuð, t.d. „í upphafi skyldi endinn skoða“ sem er úr Síraksbók og að „uppskera eins og maður sáir“ úr 2. Korintubréfi.

Frá upphafi lýðveldis á Íslandi árið 1944 hefur embættistaka forseta hafist með guðsþjónustu í Dómkirkjunni.  Hér er fyrirbænar- og þakkarstund.  Hér er minnt á samfylgd þjóðar og kristinnar trúar í þúsund ár.  Í Davíðssálmi segir skáldið:  „Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.“  (118:24) Það er vissulega tilefni til að gleðjast á þessum degi þegar nýkjörinn forseti er settur inn í embætti.  Það eru tímamót í dag fyrir hinn nýkjörna forseta og fjölskyldu hans og fyrir íslenska þjóð.

Bóndinn og skáldið Guðmundur Ingi Kristjánsson samdi ljóð um hið nýja sem kemur:

Það kemur, það kemur, hið nýja, hið nýja!

– Þú nemur hið mjúka, hið glaða og hlýja

sem ómar og skín, sem ilmar og hlær

þar sem eitthvað sem nýtt er kemur og grær.

Við, íbúar þessa lands lifum í voninni.  Væntum hins nýja sem kemur og grær.  Voninni um samhljóm í lífi fólksins í landinu.  Þakklæti er ein grunnstoð hamingjunnar.  Við megum ekki gleyma að þakka fyrir allt það góða sem við höfum og það sem gert hefur verið til heilla og framfara.  Það er eðlilega uppi rík krafa að halda á lofti mannréttindum, mannúð, og jöfnuði fyrir alla.  Að rýnt sé til gagns í almennri umræðu og hvers konar niðurrifi sé hætt.  Fólkið í kirkjunni sem og íbúar þessa lands vænta þess af okkur sem valin höfum verið til forystu að við stöndum okkur í þeim efnum.

Á undanförnum árum hefur verið rætt um innihald samfélagssáttmála.  Unnið hefur verið að endurskoðun stjórnarskrárinnar en hún hlýtur að innihalda þau grundvallaratriði sem lög og reglur byggja á.  Þar viljum við vera hyggin og byggja á bjargi sem ekki bifast þó hellirigni. Við erum rík þjóð.  Land okkar er fagurt og frítt og auðlindir miklar.  Þegar ferðast er um landið má þó sjá að mesti auður þessa lands er fólkið sem hér býr.

Í dag er dagur gleði og vonar.  Samleið forsetaembættisins og Þjóðkirkjunnar  hefur frá upphafi verið farsæl.  Ég bið þess að svo megi áfram verða.  Ég þakka fráfarandi forseta samleið og störf og bið verðandi forseta farsældar í þjónustunni fyrir land og þjóð.  Guð blessi þig og fjölskyldu þína alla. :  „Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði, fögnum og verum glaðir á honum.   Drottinn, hjálpa þú, Drottinn, gef þú gengi.“ (Dav.118:24-25)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 1. ágúst 2016 við embættistöku forseta Íslands.

Umhverfisvernd og sjómannadagurinn

sjomannadagsmerkidNáð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Til hamingju með daginn ykkar kæru sjómenn.

Það var hart barist fyrir lífsbjörginni hér við land fyrir 40 árum og reyndar líka fyrr.  Um þessar mundir er þorskastríðanna minnst, átakanna milli Íslendinga og Breta um fiskveiðiréttindi á Íslandsmiðum í kjölfar útfærslu landhelginnar.  Þorskastríðin eru hluti af sögu þjóðarinnar.  Sögu sem vert er að minnast.  Minna okkur á að það hefur þurft að hafa fyrir því sem er.  Minna okkur á að efnahagslegur grundvöllur þjóðarinnar hefur byggst á því sem í askana er látið.  Minna okkur á ábyrgð okkar gagnvart hinni sístæðu sköpun sem okkur mannfólkinu hefur verið trúað fyrir.

Menn horfðu til framtíðar fyrir 40 árum þegar síðasta þorskastríði lauk.  Nú horfa    menn líka til framtíðar og byggja á þeim upplýsingum sem eru til staðar nú þegar.  Nú er því spáð að árið 2050 verði meira plast í sjónum en fiskur.  Það er ekki lengur bara trjábolirnir frá Síberíu sem rata á land við strendur landsins heldur einnig plast og annað rusl sem eyðist ekki í sjónum eða náttúrunni.  Sjá má á plastumbúðum í fjörum landsins að ferðalagið hefur oft verið langt ef marka má upplýsingarnar sem enn má lesa á þeim. Sagt er að rusleyjan sem flýtur á Kyrrahafinu sé margfalt stærri að flatarmáli en Ísland.

Það er fleira sem mengar sjóinn en plastið.  Við þekkjum að olían mengar enda köllum við það slys þegar olía lekur í sjóinn.  Næringarefni frá landbúnaði geta einnig mengað sjóinn og eytt sjávarlífverum ef þau fara í of mikilu magni í sjóinn eins og raunin er.  Frá iðnaði berast efni til sjávar sem raska lífríkinu.

Það er því verk að vinna og ábyrgð mannkyns er mikil því ekki er hægt að   fresta því að finna lausn á þeirri mengun sem í hafinu er.

Lengi tekur sjórinn við var sagt og er ef til vill enn.  Þau orð eru ekki lengur í gildi því framtíð lífs hér á jörðu er í húfi.  Þó sjórinn þekji um 70% af hnettinum jörð tekur hann ekki endalaust við. Úrgangur og spilliefni sem hingað til hafa farið í sjóinn eru að breyta vistkerfi sjávar til hins verra fyrir lífið á jörðinni.  Þetta er ekki vandamál Íslendinga einna heldur mannkyns alls.  Við erum hluti af þjóðum heimsins og berum okkar ábyrgð eins og aðrir.

Við höfum líka mikið til málanna að leggja við rannsóknir á mengun sjávar og lausn á því vandamáli.  Við verðum að vera vakandi fyrir því að sjórinn tekur ekki lengur við öllu sem í hann er kastað.

Mengun sjávar hefur ekki bara áhrif á lífríki sjávarins.  Í frétt um hreinsunarferð í fjörur á Hornströndum kom fram að „stærra rusl brotnar á endanum niður í smærri einingar og verður að svokölluðu örplasti.”  Örplastið á greiða leið inn í líkama sjávarlífvera og fer svo upp fæðukeðjuna og endar í líkama okkar sem neytum.  Plast dregur líka í sig eiturefni sem verða á vegi þess í hafinu og þannig aukast mengungaráhrifin.  Hér er því alvarlegt mál á ferð sem ekki bara sjómenn þurfa að vera vakandi fyrir heldur við öll.

Á sjómannadegi erum við minnt á að lífið á sér margar hliðar.  Það gefur á bátinn á fleiri stöðum en við Grænland.  Það getur gefið all hressilega á lífsbátinn okkar.  Stundum siglum við blíðan byr, stundum í ofsarokinu berjumst.  Þeir textar sem lesnir voru hér í dag úr Biblíunni minna okkur á þetta sem og sálmarnir sem við syngjum.  Það að talað sé um það í Biblíunni að veður geta verið válynd og öldurnar háar segir okkur að menn þess tíma þegar textarnir voru skrifaðir, þekktu þetta vel.  “Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið, og þeim féllst hugur í háskanum.  Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður og kunnátta þeirra kom að engu haldi“ segir í fyrri ritningarlestrinum.

Þeir voru á sjónum.  En þannig getur það líka verið í lífinu.  Við missum tökin.  Við ráðum ekki við aðstæðurnar.  Við finnum að við getum ekki allt ein.  Við þurfum hjálp.  Sem betur fer hefur þekking manna aukist til muna.  Tæki og enn betri tæki hafa verið fundin upp.  Veðurspár hafa batnað.  Fatnaður hlífir betur og er þægilegri.  Slysavarnarskóli sjómanna hefur miðlað þekkingu og reynslu.  En við veður og vinda ráðum við ekki nema að litlu leyti.  Veðurfar er að breytast af manna völdum.  Það er því ekki hægt að reiða sig á manna minni varðandi fyrirbæri náttúrunnar.

Við mannfólkið erum ekki alltaf tilbúin til að hlíta ráðum reyndari manna.  Við eigum oft erfitt með að trúa nema reyna sjálf.  Þannig var það líka fyrir tvö þúsund árum.  Í síðari ritningarlestrinum heyrðum við hrakningasögu Páls postula og félaga hans sem endaði þó vel.  “Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni.“  Á þeim slóðum sem þeir Páll og félagar voru á eru margir í dag.  Fólk sem er að flýja ófrið og ömurlegar aðstæður.  Fólk sem vill búa börnum sínum öruggara líf.  Fólk sem hrópar á hjálp.  Það eru ekki allir sem ná landi lifandi eins og Páll og félagar forðum. Því miður eru margir sem drukkna á leiðinni í óskafrelsið.  En það er líka gleðilegt að minnast þess að Íslendingar björguðu flóttamönnum á Miðjarðarhafinu þegar þeir stóðu þar vaktina í hitteðfyrra.

Þrátt fyrir alla þekkingu og reynslu koma upp atvik sem mannlegur máttur fær ekki við ráðið.  Guðspjall sjómannadagsins, frásagan af því þegar Jesús hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn er jafn kunnugleg og frásagan af fæðingu Jesú.  Þar er gefið gott ráð þegar stormviðri lífsins buga okkur, gera okkur máttvana og hrædd.  Í fréttablöðum og miðlum er gjarnan sagt frá því þegar slys verða.  Þau sem slasast eru tekin tali og nær undantekningalaust þakka þau fyrir að komast lífs af og lítt sködduð.  Oftar en ekki er Guði þakkað.  Þegar á reynir gerum við okkur grein fyrir að lífið sjálft er ekki í okkar höndum þó við getum sjálf gert ýmislegt til að auðga líf okkar og auka lífsgæði okkar og jafnvel heilsu.  En lífið sjálft er gjöf.  Við báðum ekki um að fæðast en við þökkum fyrir að hafa fæðst og þráum að lifa lífinu í fullri gnægð.

Þegar lærisveinar Jesú gátu ekki lengur stýrt bát sínum því öldurnar voru orðnar himinháar og vindurinn margir metrar á sekúndu leituðu þeir hjálpar.  Jesús svaf þrátt fyrir veðurofsann segir í guðspjallinu.

Um aldir hefur Jesús verið í þjóðarskútunni íslensku.  Nú heyrast raddir um að hans sé ekki óskað lengur.  Það er sjónarmið út af fyrir sig.  Það er talað um trúfrelsi, eðlilega en á stundum virðist vera í lagi að gera lítið úr trú kristins fólks.  Trúin og trúariðkunin er töluð niður.  En það er nú enn þannig að hér á landi er fjöldi fólks sem einlæglega vill hafa Jesú í bátnum sínum.  Hann sem hastaði á vindinn og vatnið og þau hlýddu.  Hann sem hefur allt vald á himni og á jörðu.

Hér í Dómkirkjunni er fáni með  stjörnum, jafnmörgum og  hlutu hina votu gröf  á umliðnu ári. Nöfn þeirra og líf er geymt í hjarta Guðs. Við sameinumst í bæn fyrir þeim og ástvinum þeirra.

Nú á þessari stundu verður lagður blómsveigur að minnisvarða óþekkta sjómannsins í Fossvogskirkjugarði í virðingu, þökk og samúð. Rísið úr sætum og við lútum höfðum  svo í þögn.

Veit þeim,  Drottinn, þína eilífu hvíld, og lát þitt eilífa ljós lýsa þeim. Þeir hvíli í þínum friði. Hugga þau sem eiga um sárt að binda, signdu hverja minningu, varðveit hverja von, þerra hvert tár.  Í Jesú nafni. Amen.

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á sjómannadag 5. júní 2016. 

Textar: Slm 107.1-2, 20-31; Post 27.13-15, 20-25; Matt 8.23-27.

Nauðung og kærleikur

Nýverið sótti ég heimsráðstefnu Sameinuðu biblíufélaganna í Bandaríkjunum. Í leiðinni fór ég á safn sem er búgarður, þar sem þrælar bjuggu fyrir um tvö hundruð árum. Þar var stórt hús sem fjölskyldan bjó í og svo minni hús þar sem þrælarnir afrísku bjuggu. Áhugavert var að koma á slíkan búgarð og heyra söguna, ganga um og sjá í huganum fólkið sem þar bjó og starfaði. Hugsa til þess að fólk hafi verið numið brott frá heimilum sínum, flutt nauðugt til annarrar heimsálfu og þvingað til að vinna erfiðisvinnu til að efla hag og ríkidæmi eigenda sinna. Þetta er hluti af sögu mannkyns, nokkuð sem var en ekki er í hugum flestra í okkar heimshluta.

Þegar ég kom heim, lá blaðabunki við útidyrnar. Á forsíðu eins blaðsins blöstu við fyrirsagnirnar: „Átti mig eins og þræl“og „Flúði vinnumansal en framseldur til baka“. Þegar þessu blaði og öðrum var flett, mátti sjá fleiri fréttir af fólki sem hafði verið sent úr landi, ekki til heimalandsins, heldur til þess lands sem það kom frá hingað til lands. Fólki sem hafði dvalist hér á landi svo að mánuðum skipti, jafnvel árum. Einn þeirra sem sendur var nauðugur úr landi ákallaði Jesú er hann var snúinn niður í Leifsstöð. Slíkar fréttir vekja spurningar.
Viljum við tilheyra samfélagi sem sýnir ekki elsku í verki? Sem auðsýnir ekki mannúð? Sem fer ekki eftir þeim kristna boðskap að elska náungann eins og okkur sjálf? Okkur varðar nefnilega um náunga okkar.

Þjóðkirkjan hefur í sinni þjónustu prest innflytjenda. Hann hefur undanfarin ár unnið mikið með hælisleitendum. Margir þeirra eru ekki kristinnar trúar. Kirkjan sinnir þeim að sjálfsögðu líka, því að hún hefur orð Jesú um elsku til Guðs, náungans og okkar sjálfra að leiðarljósi. Hún er biðjandi, boðandi og þjónandi.

Þjóðkirkjuprestur innflytjenda og fleiri prestar á höfuðborgarsvæðinu hafa staðið fyrir reglulegum helgistundum á ensku. Sífellt fjölgar í þeim hópi sem þær sækja og þiggja þjónustu kirkjunnar, fræðslu og umhyggju.

Hælisleitendur gefa líka því þeir taka þátt og hjálpa til við ýmis verk sem sinna þarf. Sumir þeirra hafa verið sendir úr landi en fólk, sem tekur kristna trú, er víða óvelkomið aftur til heimalandsins. Talið er að 11 kristnir einstaklingar séu teknir af lífi á hverri klukkustund í heiminum vegna trúar sinnar. Það er skylda Íslendinga að sýna þann kærleik og þá gestrisni sem kristin trú boðar.

Í fyrirlestri, sem fluttur var á áðurnefndri ráðstefnu, kom fram að frá upphafi kristni hafa um 75 milljónir kristinna verið drepnar vegna trúar sinnar, þar af um 45 milljónir á síðustu öld. Það er ekki bara í löndum þar sem kristnir eru í minnihluta sem fólk lætur lífið vegna trúar sinnar. Ég hvet þau sem um mál hælisleitenda fjalla að líta til kristinna meðbræðra okkar og systra sem hér leita hælis og veita þeim örugga búsetu hér á landi.

Stöndum með meðbræðrum okkar og systrum, hverrar trúar eða lífsskoðunar sem þau eru, og látum það ekki um okkur spyrjast að við sendum fólk út í opinn dauðann. Þurfi lagabreytingu til þá er það Alþingis að vinna það verk. Þurfi breytingu á verklagsreglum, þarf að huga að því í Innanríkisráðuneytinu.

Grein sem var fyrst birt í Morgunblaðinu laugardaginn 4. júní 2016