Bjartsýni á framtíð kirkjunnar

Ég fagna því að fá að eiga fund með ykkur hér í dag þar sem fulltrúar safnaða landsins koma saman. Þetta hefur verið viðburður í kirkjunni okkar, sennilega frá árinu 1986. Þegar Pétur Sigurgeirsson var biskup ákvað hann að halda leikmannastefnu og hann lagði mikla áherslu á leikmannastarfið í kirkjunni og vildi efla það. Hluti af erindisbréfi hans fjallar um það. Það má því segja að leikmannastefna sé orðin eins og fullorðinn einstaklingur: fastmótuð en samt móttækileg fyrir nýrri reynslu og lærdómi.

Leikmannastefna 2013

Fjölbreytt dagskrá
Það er mér vígðri konunni þakkarefni að fá að sitja Leikmannastefnu þar sem leikir fulltrúar safnaða landsins koma saman og ráða ráðum sínum, uppbyggjast og fyllast bjartsýni á framtíð kirkjunnar, því allt frá byrjun hef ég heyrt frásagnir af Leikmannastefnu á héraðsfundum, bæði í Borgarfirði og á Vestfjörðum. Frásagnirnar hafa einatt verið á einn veg, að eftirsóknarvert væri að fá að vera fulltrúi sóknanna í héraðinu.

Á þessari Leikmannastefnu er fjölbreytt dagskrá eins og við höfum séð. Rætt verður um það sem er grundvöllur áframhaldandi þátttöku almennings í kirkjunni okkar, æskulýðsstarfið. Án starfs og boðunar meðal yngstu kynslóðarinnar þá getur framtíð kirkjunnar ekki verið farsæl. Einnig verður minnt á gildi kirkjuþings en á því sitja eins og kunnugt er fleiri fulltrúar leikra en lærðra og síðan verða umræður um stöðu trúfélaganna. Þetta eru verðug verkefni til að takast á við og ræða hér í dag.

Mikilvægt að hlúa að æsku landsins
Æskulýðsstarfið hlýtur að vera eilífðarmál til umræðu innan kirkjunnar því að án þess þá sjáum við ekki framtíð kirkjunnar hér í landinu. Það er mikilvægt að hlúa að æsku þessa lands og flest börn hér á landi eru skírð og þar með hafa foreldrarnir ákveðið að þau skuli alast upp samkvæmt kristnum gildum og kristinni trú og er mikilvægt að kirkan muni eftir því hlutverki sínu í því sambandi að fræða börnin og bera ábyrgð á fræðslu þeirra og boðun til þeirra eins og foreldrarnir gera og skírnarvottarnir reyndar líka.

Lögfesting Barnasáttmála mikilvægt skref
Nýlega var lögfestur Barnasáttmáli Sameinuðu Þjóðanna á Alþingi okkar og það er mjög mikilvægt að svo hafi verið gert. Að við minnumst þess í allri lagasetningu varðandi börn að gæta hagsmuna þeirra í hvívetna og að þau séu aðalatriðið í lagasetningu varðandi sig sjálf, en ekki fullorðna fólkið. Það eru þau sem skipta mestu máli og þess vegna er löggilding þessa sáttmála mjög mikilvæg. Hann er orðinn tuttugu ára gamall og þótt við höfum starfað í anda hans er full ástæða til að staðfesta hann með þessum hætti.

Í því sambandi vil ég geta þess að kirkjan hefur lagt sig fram um að tryggja öryggi bara og ástunda fagleg vinnubrögð gagnvart börnum í starfi kirkjunnar og hefur meðal annars tekið upp að skima allt starfsfólk. Nú hefur þessi skimun gengið lengra og nær líka til sóknarnefnda og sjálfboðaliða í kirkjunni. Hjá sumum sóknum hefur skimunin farið fram að öllu leyti, í öðrum sóknum bara hjá þeim sem eru fastir starfsmenn í barnastarfi og þeim sem þjóna þar, bæði á það við um leika og lærða.

Þetta er mikilvægt því við þurfum að vanda okkur að öllu leyti í kirkjunni. Það hefur verið haft orð á því að fagleg vinnubrögð í kirkjunni, til dæmis í sambandi við starfsþjálfun prestsefna og djákna séu góð, jafnvel betri en í öðrum stofnunum og stéttum samfélagsins.

Við stefnum öll í sömu átt
Kirkjunni er stundum líkt við skip og á skipi starfa margir. Til að það geti farið rétta leið þarf ekki bara skipstjóra heldur líka vélstjóra, háseta, stýrimann, kokk og svo framvegis. Þannig er kirkjan okkar líka. Við höfum öll mismunandi hlutverkum að gegna, þannig að við erum öll á sama báti og það ríkir jafnræði í kirkjunni að því leytinu til.

Ég vil leggja áherslu á að við stefnum öll í sömu átt, erum öll í sama liðinu, hvert svo sem hlutverk okkar er í kirkjunni. Þess vegna hef ég látið detta mér í hug að Leikmannastefna og Prestastefna geti farið saman að einhverju leyti, einhvern tímann á minni biskupstíð, þannig að við finnum betur að við störfum öll í sömu kirkjunni og vinnum öll að sama markmiði: að breiða út boðskapinn og sýna fólki þannig umhyggju, sýna fólkinu í landinu að við stöndum með þeim. Við leggjum áherslu á jafnræði allra.

Vilji til samstöðu og samstarfs trúfélaga
Það er einnig verðugt verkefni hér að tala um trúfélögin. Samstarfsnefnd kristinna trúfélaga hefur starfað í um 40 ár hér á landi og hefur starf hennar verið farsælt og gott og aukið skilning okkar á því að nauðsynlegt er að við stöndum saman, kristið fólk hér í landi til að kristinn siður fái framgang og kristin gildi haldi áfram að vera þau gildi sem við lifum og störfum eftir hér í þessu þjóðfélagi.

Það er meiri vilji til samstöðu og samstarfs innan kristinna trúfélaga núna en kannski nokkru sinni áður. Við skiljum öll og skynjum að samstaða og samstarf er það sem gildir í nútímanum og er okkur öllum fyrir bestu. Þó að ýmis atriði skilji okkur að hvað boðun og guðfræði varðar þá trúum við öll á hinn sama Drottinn, treystum honum og viljum að boðskapur hans nái eyrum þjóðarinnar.

Öll skírð til sömu þjónustu
Það er líka minnt á gildi kirkjuþings og þar er einmitt unnið mikilvægt starf innan kirkjunnar, þar sem reglur eru settur og farvegur fyrir verkefnin okkar. Þar heyrist rödd leikmanna jafnt sem þeirra sem vígð eru. Lúther sagði að við værum öll prestar því vígslan okkar er fyrst og fremst skírnin. Við höfum verið skírð til sömu þjónustu innan kirkjunnar og í samfélaginu og það er það sem gildir.

Ég bið þess að friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum, og bið þess að við eigum eftir að eiga hér góðan, gefandi, farsælan og blessunarríkan dag.

Takk fyrir.

Flutt við setningu Leikmannastefnu í Grensáskirkju, 9. mars 2013.