Heimsókn vegna Hátíðar vonar

Í dag kom Franklin Graham, ásamt fylgdarliði, í heimsókn til mín á Biskupsstofu. Hann sagði mér frá starfi sínu og Billy Graham samtakanna, sem faðir hans stofnaði. Samtökin standa fyrir Hátíð vonar, sem fram fer í Laugadalshöll um helgina. Ég þáði fyrir mörgum mánuðum síðan boð um að ávarpa hátíðina sem ég mun gera á laugardagskvöldið.

Ég hef tekið eftir því undanfarna daga að auglýsingar vegna hátíðarinnar hafa verið mjög áberandi. Ég tjáði honum að ég væri óvön slíkum auglýsingarherferðum á sviði kirkjumála, því þjóðkirkjan nýtir takmarkað fjármagn sitt með öðrum hætti.

Við ræddum einnig um samstarf kristinna kirkjudeilda á Íslandi og ólíka nálgun þeirra á Biblíuna, frá bókstaflegri nálgun til hinnar lúthersku nálgunar sem horfir til Jesú Krists og gengur út frá því hvernig hann mætti, og mætir, fólki.

Á fundinum gerði ég honum grein fyrir stöðu þjóðkirkjunnar sem starfar um land allt, er opin öllum landsmönnum og þjónar öllum. Ég sagði honum jafnframt frá afstöðu þjóðkirkjunnar til samkynhneigðra. Kirkjan hefur tekið skýra afstöðu með samkynhneigðum, réttindabaráttu þeirra, fjölskyldum og hjónabandi.

Ólík fjölskylduform tíðkast á Íslandi í dag. Þar er engin einsleitni í gangi. Ógift og barnlaust par er fjölskylda, tveir karlmenn eða tvær konur og barn eða börn þeirra eru fjölskylda, karl og kona sem eiga barn eða börn eru fjölskylda. Margar fjölskyldur eru líka samsettar og fjöldi barna á Íslandi á fleiri en eitt heimili. Svo búa sum ein. Hafa alltaf búið ein, eru fráskilin eða hafa misst maka sinn. Fjölskyldan er grunneining samfélagsins. Þjóðkirkjan vill standa vörð um fjölskyldurnar allar, hvert svo sem form þeirra er og einnig stuðla að og standa vörð um velferð þeirra.