Bænin í Ríkisútvarpinu

Mikil umræða hefur verið um boðaðar breytingar á dagskrá Rásar 1 sem kynntar voru nýlega. Fjöldi fólks hefur látið sig varða um málið og sýnt stuðning við kristnina í landinu og sýnileika hennar í almannarýminu. Ég hef rætt þessi mál við Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra og komið á framfæri sjónarmiðum kirkjunnar.

Ég fagna því að morgunbæn og hugvekja verði á dagskrá Rásar 1 að morgni og fái aukið vægi. Það er mikilvægt að bænarorðin hljómi á öldum ljósvakans og verði okkur veganesti í dagsins önn.

Það er hins vegar leitt að ekki sé rými fyrir kvöldbæn í nýrri dagskrá. Samkvæmt mínum skilningi er það í takt við hrynjandi dagsins, árstíðanna og lífsins, að hafa bæn í upphafi og lok dags. Dýrmætt væri að finna leið til þess í útvarpi allra landsmanna.

Ég gleðst jafnframt yfir því að beinar útsendingar verði áfram frá guðsþjónustum. Það er mikilvæg þjónusta við landsmenn alla.

Þá vil ég fagna nýjum þætti um trú, menningu og samfélag sem verður á dagskrá á sunnudagskvöldum. Ég bind vonir við að hann verði til að auka skilning á hinu trúarlega í samfélaginu.

Ég vænti góðs samstarfs við nýja stjórnendur Ríkisútvarpsins og bið þeim blessunar í starfi sínu.