Opið bréf vegna fyrirhugaðra breytinga á dagskrá Rásar 1

Fyrr í dag sendi Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, opið bréf frá biskupafundi til Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra um fyrirhugaðar breytingar á dagskrá Rásar 1.

Bréfið er svohljóðandi:

Útvarpsstjóri,
Magnús Geir Þórðarson.

Ágæti útvarpsstjóri,
stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa ákveðið að taka af dagskrá Rásar 1 Morgunbæn, Orð kvöldsins og Morgunandakt og hafa lýst því yfir að í staðinn verði á dagskrá umræðuþáttur um trú, menningu og samfélag.

Biskupafundur samþykkti af þessu tilefni:

„Biskupafundur haldinn á Hólum, 18. ágúst, fagnar því að fyrirhugaður sé nýr þáttur á Rás 1 í Ríkisútvarpinu um trú, menningu og samfélag.

Biskupafundur harmar þá ákvörðun stjórnenda Ríkisútvarpsins að fella niður Morgunbænir, Morgunandakt og Orð kvöldsins og hvetur stjórnendur til að endurskoða þá ákvörðun.
Þáttur um trúmál kemur aldrei í staðinn fyrir trúariðkun. Bænir á vefnum koma aldrei í staðinn fyrir lesna bæn.

Biskupafundur minnir á að Ríkisútvarpið hefur skyldur við alla landsmenn eins og Þjóðkirkjan og minnir jafnframt á að hlutfall kristinna manna á Íslandi er um 90 prósent.
Þjóðkirkjan hefur átt farsælt samstarf við Ríkisútvarpið frá upphafi Ríkisútvarpsins og væntir þess að það góða samstarf haldist um ókomin ár.“


Með bæn um blessun Guðs í lífi og starfi, f.h. biskupafundar,
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands.

Opið bréf til útvarpsstjóra