Sköpum rými fyrir kvöldbæn

Eitt af hlutverkum þjóðkirkjunnar er að standa vörð um kristinn boðskap og gildi í þjóðfélaginu. Það er ekki hlutverk hennar að setja saman dagskrá Ríkisútvarpsins þótt útvarpið og kirkjan eigi gott samstarf um skipulag og framkvæmd nokkurra dagskrárliða, s.s. útvarpsguðsþjónustu, Morgunbænar, Morgunandaktar og Orðs kvöldsins.

Í umræðum um breytingar á dagskrá Rásar 1 áttum við Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri samskipti um hvernig breytingarnar snertu áðurnefnda dagskrárliði. Í samtölum okkar kom ég því á framfæri að mér þætti það miður að ekki væri rými í nýrri dagskrá fyrir bæði Orð kvöldsins og morgunbæn á þeim tímum sem þessir liðir hafa verið.

Samkvæmt mínum skilningi er það í takt við hrynjandi dagsins, árstíðanna og lífsins, að hafa bæn í upphafi og lok dags. Það er mikilvægt að bænarorðin hljómi í almannarýminu og þar gegnir Ríkisútvarpið leiðandi hlutverki.

Ég vil með þessum orðum hvetja útvarpsstjóra til að leita allra leiða til að skapa rými í dagskrá Rásar 1 fyrir kvöldbæn.