Trú og bæn eru systur

„Bænin má aldrei bresta þig,

búin er freisting ýmisleg.

Þá líf og sál er lúð og þjáð

lykill er hún að drottins náð.“

Þannig yrkir einn mesti áhrifavaldur trúarlífs okkar Íslendinga Hallgrímur Pétursson í 4. Passíusálmi sínum. Hann þekkti þann Drottinn er Jesús Kristur birti og boðaði og hætti aldrei að treysta honum. Bænin í Jesú nafni er sá fjársjóður er þjóðin hefur leitað til í gegnum aldirnar og sá fjársjóður sem börnin fá í heimanmund. Sá fjársjóður hrynur ekki og hann skilar endalausum arði hvort heldur vel stendur á eða illa.

Í dag fá kristnir einstaklingar þessa lands einstakt tækifæri til að sameinast í bæn fyrir landi og þjóð. Við erum hér saman komin, fólk úr ýmsum kirkjudeildum og víða að af landinu. Við höfum sameiginlega sannfæringu fyrir því að bænir okkar eru heyrðar og hafa áhrif. Við tölum við þann er við vitum að elskar okkur hvert og eitt eins og við erum. Þess vegna komum við óhrædd fram fyrir Jesú og treystum honum fyrir öllu okkar, treystum honum fyrir landinu okkar og þjóð okkar.

Fjöldi rannsókna hefur verið gerður á áhrifamætti bænarinnar. Margar þeirra sýna jákvæð tengsl á milli trúarhollustu og heilbrigðis. Eins hafa rannsóknir sýnt lífeðlisfræðilegar breytingar í heila manna þegar þeir biðja.

Stundum er kvartað yfir því að í kirkjum landsins sé alltaf sama formið endurtekið sunnudag eftir sunnudag. Rannsóknir hafa sýnt að þegar bænir eru endurteknar hefur það áhrif á líðan fólks til hins betra. Þekkt er líka að bænasvar upplifa þau sem trúuð eru oftar en þau sem ekki trúa á bænina. Trú og bæn eru systur sem ganga saman veginn. Bænin er gjöf sem við megum nota og eigum að nota.

Þekkt er sagan af því þegar Skaftáreldar geisuðu og sr. Jón Steingrímsson bað heitt um hjálp Guðs þegar hraunflóðið stefndi á kirkjuna. Sú bæn var heyrð og bænir okkar munu einnig verða heyrðar hér í dag. Bænin hefur áhrif. Um það vitnar reynsla fjölda fólks.

Bænin snertir við tilfinningum okkar og hjartalagi. Við getum beðið Drottinn að miskunna okkur eins og blindi beiningamaðurinn sem heyrði að Jesús var nærri. Þessi elsta bæn kristinna manna hefur sennilega verið beðin oftar en allar aðrar bænir. „Drottinn Jesús Kristur, miskunna þú mér.“ Í bæn getum við tjáð hrifningu okkar á Guði eins og höfundur 8. Davíðssálms gerir: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, sem þú settir þar, hvað er þá maðurinn þess að þú minnist hans, og mannsins barn að þú vitjir þess?“

Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja þegar einn þeirra bað hann um það. Hann kenndi þeim bænina Faðir vor sem beðin er hvern dag um allan hinn kristna heim. Arfur kynslóðanna birtist meðal annars í því bænamáli og það má ekki gerast að kunnáttan hætti að vera til staðar og hætti að berast frá einni kynslóð til annarrar.

Kristsdagur á sér sennilega engan líkan hér á landi. Að kristnir menn allra kirkjudeilda komi saman og biðji fyrir landi og þjóð. Þökk sé ykkur sem hafið undirbúið þennan dag í bæn og skipulagningu. Svona atburður gerist ekki af sjálfu sér. Mikil vinna liggur að baki sem og fullvissan um að blessun Guðs er yfir og allt um kring.

„Ef tveir yðar verða einhuga hér á jörð í bæn sinni mun faðir minn á himnum veita þeim allt sem þeir biðja um. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni þar er ég mitt á meðal þeirra.“ Mt. 18:19-20

Í trausti þessara orða Jesú komum við saman hér í dag. Bænin er gulls í gildi. Um það vitnar reynsla kynslóðanna og um það vitna niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið um bænina og gildi hennar. Á stundum gleði og sorgar, á stundum óöryggis og vonleysis hefur bæn verið beðin og heyrð. Megi bænamálið hljóma um landið allt hér eftir sem hingað til.
Guð blessi land og lýð. Gleðilega hátíð í Jesú nafni.

Flutt á Kristsdegi í Hörpu 27. september 2014.