Afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana

Á kirkjuþingi í dag var samþykkt tillaga biskups Íslands um að lýsa yfir stuðning við framkomið frumvarp á Alþingi um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana í almennum hegningarlögum nr. 19/1940, þar sem m.a. er að finna ákvæði um guðlast.

Ályktun þingsins er svohljóðandi:

Kirkjuþing 2014 styður framkomið frumvarp á Alþingi um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, mælti fyrir málinu. Í greinargerð sem fylgir því segir:

Flokkur Pírata hefur nú lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um afnám fangelsisrefsinga fyrir tjáningu skoðana. Með frumvarpi Pírata er lagt til að að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsi skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisrefsingar fyrir að tjá skoðanir sínar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. að lagt sé til að ákvæðum almennra hegningarlaga sem setja tjáningarfrelsinu skorður verði breytt á þann veg að ekki verði heimilt að dæma menn til fangelsisvistar fyrir að tjá skoðanir sínar. Í greinargerðinni kemur einnig fram að tjáningarfrelsið sé einn af mikilvægustu hornsteinum lýðræðis og frelsis. Það sé grundvallaratriði í frjálsu samfélagi að almenningur geti tjáð sig án ótta við refsingar af nokkru tagi, hvort heldur sem er af völdum yfirvalda eða annarra.

Í 125. gr. almennra hegningarlaga, er nú m.a lögð fangelsisrefsing við því að draga opinberlega dár að eða smána trúarkenningar eða guðsdýrkun löglegs trúfélags, sem er hér á landi. Biskup tekur undir þá skoðun Pírata að lagaheimildir sem setja tjáningarfrelsinu skorður með þessum hætti standist ekki nútíma viðhorf til mannréttinda.

Nánar

Lagafrumvarpið á vef Alþingis