Hugsað á mánudegi II

Undanfarið hafa mörg orð fallið um fjármál Þjóðkirkjunnar. Bæði er að Þjóðkirkjan hefur úr háum fjárhæðum að spila og eins finnst mörgum að umræða um trú og fjármál fari ekki saman. Fram hefur komið að fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju eru af tvennum toga. Annars vegar félagsgjöldin og hins vegar kirkjujarðasamkomulagið sem svo er nefnt.

Félagsgjöldin, öðru nafni sóknargjöldin renna beint til sóknanna, sem eru um 270 á landinu. Fjárhæðin sem greidd er vegna kirkjujarðasamkomulagið rennur beint til Þjóðkirkjunnar. Ekki hefur því verið haldið á lofti í umræðunni að félagsgjöldin, eru félagsgjöld allra trú- og lífsskoðunarfélaga á landinu, skv. lögum nr. 91 frá 29. desember 1987. Ríkið hefur ekki skilað þeim að fullu eins og lögin gera ráð fyrir.

Ef þau lækka, lækka þau hjá öllum trú- og lífsskoðunarfélögunum, ef þau hækka, hækka þau hjá öllum. Barátta Kirkjunnar fyrir hækkun sóknargjaldanna gagnast því öllum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum.

Kirkjujarðasamkomulagið felur í sér afgjald af rúmlega 600 jörðum sem ríkið fékk frá Kirkjunni og sú fjárhæð sem Kirkjan fær í gegnum það greiðir m.a. laun presta landsins. Prestar ákveða ekki sjálfir laun sín, heldur er það kjaranefnd ríkisins.

Þjóðkirkjan er fjölmennasta trúfélag landsins og stærsti félagsskapur landsins sem telur um 250.000 félaga. Það er því ekki verið að tala um einhvern lokaðan fámennan klúbb þegar Þjóðkirkjuna ber á góma. Langflestir félagsmenn eru leikmenn og eru þúsundir þeirra í beinni þjónustu í sínum sóknum, flestir án þess að þiggja laun fyrir. Má þar nefna sóknarnefndirnar, kórana, sjálfboðaliðana, ræstitæknana og fleiri.

Svo hefur verið spurt hvort Kirkjan geti ekki frekar stutt heilbrigðiskerfið frekar en að hugsa um sjálfa sig þegar peningar eru annars vegar. Við skulum bara vona að fjórir milljarðarnir sem sóknir landsins hafa látið í té í ríkispottinn undanfarin ár hafi farið í eitthvað þarflegt. Einnig að 500.000.000 sem Þjóðkirkjan hefur gefið eftir af sínum potti hafi nýst til gagns.
Það er í mannlegu eðli að vilja fá eitthvað í staðinn fyrir það sem látið er í té. Hinn almenni neytandi finnur e.t.v. ekki að eitthvað sé látið í staðinn fyrir greiðslu félagsgjaldanna, nema ef eitthvað bjátar á eða þjónustu þarf að fá. Við ættum e.t.v. að fara að eins og frændur okkar Norðmenn og Svíar sem hafa þann háttinn á að utan kirkju fólk greiðir fyrir þjónustuna á meðan skráðir félagar gera það ekki.

Það er talað um aðskilnað ríkis og kirkju. Sumir tala líka um aðgreiningu ríkis og kirkju. Hér á landi fór fram aðskilnaður ríkis og kirkju árið 1997 að því leyti að kirkjan er sjálfstæð um öll sín innri mál. Því er stundum líkt við skilnað af borði og sæng, sem er undanfari lögskilnaðar. Ég hjó eftir því í fréttum í síðustu viku að nefnt var að ekkert samband væri milli ríkis og trúfélaga í Frakklandi. Það vakti því furðu mína þegar prestur einn fékk embætti þar í landi og viti menn, skipunarbréfið var sent frá einu ráðuneyta landsins. Ekki veit ég skýringuna á því en þau sem hafa kynnt sér málið um fullan aðskilnað ríkis og kirkju hér á landi telja flest að ef til fulls aðskilnaðar kæmi væri erfiðara fyrir ríkið að ganga í gengum það ferli en Kirkjuna. Það er vegna samningsins sem í gildi er og nefndur er kirkjujarðasamkomulagið í daglegu tali. Hingað til hefur það ekki verið vilji ríkisvaldsins né meirihluta þjóðarinnar að fara þá leið ef marka má niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna.

En hvað sem líður umræðu um fjármál Kirkjunnar þá þarf hún fjármagn til að sinna hlutverki sínu sem er að boða Krist og trú á hann. Ekki virðist af því veita í hörðum heimi að kærleiksboðskapur hans nái fótfestu í huga og hjörtum mannanna. Hið illa veður víða uppi og við því verður ekki brugðist nema með kærleikann að vopni. Mt. 7:12; Lúk. 10:27.

Guð blessi þig í lífi og starfi