Hugsað á mánudegi

Nýtt ár hefur gengið í garð. Bið ég Þjóðkirkjufólki öllu blessunar Guðs á hinu nýja ári og þakka fyrir samfylgd og þjónustu á liðnu ári. Samstaða er það hugtak sem væri óskastaða fyrir Kirkjuna okkar á nýja árinu. Við þurfum að standa saman að því að vilja hag Kirkjunnar sem mestan og bestan. Það þýðir ekki það að við höfum öll sömu skoðun heldur að við erum tilbúin til að standa með hvert öðru í kirkjustarfinu.

Það er kallað eftir rödd kirkjunnar. Bubbi Mortens spurði mig í viðtali í desember hvað Kirkjan vildi gera fyrir mann eins og hann sem þætti ekki ýkja skemmtilegt að koma til kirkju. Gunnlaugur stjörnuspekingur spyr: „En hvað með okkur leikmennina sem viljum gjarnan heyra boðskap kristninnar? Hver er að tala til okkar?“

Það þarf að tala hátt til að heyrist og á máli sem skilst. Á þessum dæmum má sjá að samtal við þau sem ekki eru virk í kirkjulegu starfi, en vilja tilheyra Kirkjunni er nauðsynlegt. Hvernig fer það fram? Hvar fer það fram? Það eru spurningar sem við þurfum að velta fyrir okkur og finna svör við.

Biskup Íslands var í Morgunblaðinu settur við hlið forseta lýðveldisins og forsætisráðherra landsins þar sem vitnað var til nýjárprédikunar biskups og ávarpa leiðtoganna. Það segir m.a. að rödd Kirkjunnar þykir jafn mikils virði um áramót eins og raddir þeirra sem stýra landinu og veita því forstöðu.

Þjóðkirkjan sem stofnun og Þjóðkirkjan sem söfnuðirnir um landið er ekki það sama. Sú mynd sem dregin er upp af kirkjustofnuninni í fjölmiðlum er önnur en sóknarbörnin reyna í samfélagi sínu. Að minnsta kosti er það reynsla mín. Eða ætti frekar að orða þetta þannig að Þjóðkirkjan eigi sér margar myndir eins og flest annað í heimi hér? Alla vega er ljóst að kallað er eftir því að rödd Kirkjunnar heyrist oftar og hærra.

Ég var að útskýra sóknargjöldin fyrir vinkonu minni, að þau væru lögbundin og væru félagsgjöld allra trú- og lífsskoðunarfélaga í landinu og hún spurði, af hverju er ekki sagt frá þessu? Ég hélt að það væri marg búið að veita þessar upplýsingar en þær hafa greinilega ekki borist nógu víða.

Fjárhagsleg samskipti ríkis og kirkju eru með tvennum hætti eins og kunnugt er. Annars vegar sóknargjöldin sem bundin eru í lög frá árinu 1987 og eru félagsgjöld sem renna til sóknanna í landinu. Hins vegar er samkomulag milli ríkis og kirkju, kirkjujarðasamkomulagið sem felur í sér afhendingu Kirkjunnar á um 600 jörðum sínum til ríkisins sem endurgreiðir af þeim arð árlega sem svarar 138 prestsembættum og framlagi í sjóði.

Ríkisstjórnin hefur viðurkennt að sóknargjöldin hafi verið skorin niður 25% meira en til stofnana innanríkisráðuneytisins eftir hrun og hefur ákveðið að bregðast við þeim umframniðurskurði næstu fjögur árin. Enn er óljóst hvort framlagið byrjar að koma inn á árinu 2015. Varðandi kirkjujarðasamkomulagið þá hefur ríkisstjórnin farið fram á það árin eftir hrun að skorið væri af því samkomulagi og nemur sá niðurskurður nú 23% sem þýðir að í stað 138 prestsembætta verða embættin 107 á þessu ári.

Kirkjuþing mun koma saman þann 17. janúar n.k. og ákveða hvort orðið verði við þessari beiðni ríkisstjórnarinnar 6. árið í röð, því kirkjuþing hefur samþykkt slíkan viðbótarsamning frá árinu 2009. Það ætti því ekki að koma á óvart að sameiningar hafa verið á dagskrá og leitað hefur verið leiða til að minnka útgjöldin eins og annars staðar í þjóðfélaginu.

Og nú spyr almenningur. Getur Þjóðkirkjan krafist meira fjárframlags þegar Landspítalanum blæðir og ýmislegt annað situr á hakanum? Þá er því til að svara að Þjóðkirkjan er ekki á framlagi frá ríkinu, heldur var samningur gerður um fjárhagsleg samskipti þeirra tveggja. Við þá samningsgerð afhenti Kirkjan ríkinu jarðir og af þeim er arður greiddur. Þetta er því ekki sambærilegt en ljóst má vera að sú fjárhæð sem ríkið hefur haldið eftir ár hvert frá hruni hlýtur að hafa nýst annars staðar.

Skipulag starfsins og umgjörð þess skiptir máli í heildarmyndinni, en auðvitað er boðunin aðalatriðið. Kristur hvatti fylgjendur sína til að óttast ekki. Minnumst þeirra orða hans sem og annarra orða hans, framkomu og lífs. Horfum til hans og hann mun vel fyrir sjá. Lúk. 11:9

Guð blessi þig í lífi og starfi.