Hvað búa eiginlega margar þjóðir í þessu litla landi?

Um miðjan dag í gær sleit ég árlegri prestastefnu sem stóð yfir í 2 daga.  Þegar ég var að fara út úr safnaðarheimilinu þar sem hún var haldin barst í tal að ég væri að fara hingað vestur til að tala á ráðstefnu um íslenskt þjóðfélag.  Yfirskriftin væri „HVAÐ BÚA EIGINLEGA MARGAR ÞJÓÐIR Í ÞESSU LITLA LANDI?“  Þá svaraði  einn í hópnum, þær eru 47.  Eitt andartak hugsaði ég um það hvort ég þyrfti nokkuð að fara vestur, hvort ekki væri nóg að svara spurningunni með einu símtali fyrst svarið væri svona einfalt.  En ég sem sagt valdi ekki þann kostinn heldur dreif mig í faðm fjalla blárra, sem hafa mótað mig, skýlt mér og verndað allt frá barnæsku.

Stundum er talað um að það búi a.m.k. tvær þjóðir í þessu landi.  Annars vegar fólk sem hefur vart í sig og á og hins vegar fólk sem býr við mikla velmegun.  Þarna er þjóðinni skipt eftir efnahag.  Svo er þjóðinni stundum skipt eftir búsetu og talað um höfuðborgarsvæðið annars vegar og landsbyggðina hins vegar.  Svo er líka talað um þéttbýli og dreifbýli en sjaldnast er nú talað um tvær þjóðir í því sambandi.

Þjóðahátíðir

Um aldamótin síðustu voru haldnar þjóðahátíðir hér fyrir vestan nokkur ár í röð.  Það voru miklar samkomur og tóku margir þátt í þeim.  Þá kynntu íbúarnir sína menningu og eitt árið man ég að fulltrúar 46 þjóða voru með kynningu á sinni þjóðarmenningu.  Hér á norðanverðum Vestfjörðum bjuggi sem sagt fulltrúar 46 þjóða.  Töluvert var um að fólk byði mat frá sínu heimalandi, það var sungið, dansað og spiluð tónlist.  Tungumálin voru kynnt og allt var þetta fróðlegt og þarft.   Þetta var liður í því að auka skilning á lífsviðhorfum fólks af ólíku þjóðerni, kynning á menningunni sem þau höfðu alist upp við og mótast af.

Bolvíkingur?

Nýverið sá ég á síðu vinar míns á fésbókinni að hann var í útlöndum á ráðstefnu og þar sagði hann frá því að hann hefði hitt þar Íslendinga.  Og það sem meira var.  Þeir voru að vestan.  Annar frá Bolungarvík, hinn frá Ísafirði.  Einhverjir höfðu bætt við færsluna og velt fyrir sér hver annar aðilinn væri.  Bolvíkingur, já, en hver og hverra manna.  Umræðan fór síðan út í það að velta fyrir sér hvort viðkomandi gæti talist Bolvíkingur, ef hann hefði aldrei búið þar þó mamma hans hafi verið hálfur Bolvíkingur.  Já, hver er Bolvíkingur og hver ekki?  Ég hef aldrei verið í vafa um að ég væri Ísfirðingur, þó ég hafi búið næstum jafnlegi í Bolungarvík og Reykvíkingur er ég alls ekki þó ég eigi þar nú heima.  Ef einhver segist vera Bolvíkingur eins og sá er kynnti sig fyrir fésbókarvini mínum er hann þá Bolvíkingur ef hann hefur aldrei búið þar?  Við þurfum líka að eiga heima þó nokkuð lengi á einum stað til að teljast innvígð.  Það sama á við um þau er flytjast hingað frá öðrum löndum.  Þau verða seint talin Íslendingar í hugum okkar þó þau séu með íslenskan ríkisborgararétt nema ef vera kynni að þau tali lítalausa íslensku.

Í litlum bæ þar sem allir þekkja alla ræddu tvö börn saman.  Þau voru að tala um Pólveljana sem þar bjuggu.  Þau voru með það alveg á hreinu að þau væru ekki Íslendingar.  Eitthvað voru þau neikvæð út í þessa borgara.  Þeim var þá bent á það að það væru nú líka aðrir útlendingar sem byggju í plássinu og var einn nefndur til sögunnar.  Nei, hann er ekki útlendingur sögðu blessuð börnin.  Í báðum tilfellum var um fólk að ræða sem lítur út eins og við.  Hvítt á hörund, unnu sína vinnu og fleira mætti telja.  En eitt atriði var áberandi sem skildi þá að.  Það var tungumálið.  Pólverjarnir töluðu ekki lítalausa íslensku eins og hinn maðurinn.

Hátíðardagur

Á 17. júní á þjóðhátíðardegi okkar förum við gjarnan í ættjarðarstellingar, flöggum, syngjum ættjarðarljóð og breytum út af vana hversdagsins.  17. júní er jú almennur frídagur.  Það viðurkenninst að það var svolítið einkennilegt að sjá fólk af erlendu bergi brotið vera að beita þennan hátíðisdag þjóðar okkar.  Fyrir þeim var dagurinn ósköp venjulegur dagur í miðri viku.  Fyrir okkur var hann hátíðisdagur.  Tilfinninguna fyrir þessum degi vantaði hjá þeim sem beittu og það var eðlilegt.  Þau höfðu ekki verið alin upp við að halda hátíð þennan dag eins og við sem innfædd erum.  Þennan dag var greinilegt að fleiri en ein þjóð bjó í þessu landi.

 

Þegar konur eru teknir inn í félagsskap kvenna sem Zontahreying nefnist, sem er alþjóðlegur félagsskapur, fer fram virðuleg inntökuathöfn.  Þar er farið með visst ritúal og svo er sungið.  Það verður að viðurkennast að það hljómaði hálf ankanalega þegar konur brustu í söng og sungu Eldgömlu Ísafold hástöfum og annað ættjarðarlag, en þær 5 konur sem gengu í klúbbinn þennan dag voru allar fæddar og uppaldar í öðru landi.  Átti þarna að finna einhver alþjóðleg lög með góðum textum?  Átti bara að hafa þetta svona, því konurnar voru jú að ganga í klúbb sem er hér á landi?  Mér fannst þetta umhugsunarvert á þessari stundu og það var ekki samhljómur í lagi og aðstæðum.

Þjóð – þjóðir?

Það er gaman að geta þess að samkvæmt gyðinglegri hefð, sem kristnin tók yfir, voru það afkomendur Nóa sem byggðu upp jörðina. Í sumum hefðum er Sem og börn hans álitin forfeður þjóðanna í Mið-Austurlöndum og Asíu, Jafet og börn hans forverar Evrópubúa og Kam og hans börn forfeður Afríkumanna.

Það búa býsna margar þjóðir í þessu litla landi eða hvað?  Beinum sjónum að hugtakinu þjóð.  Margar skilgreiningar er til á þessu hugtaki   Í íslenskri orðabók Menningarsjóðs stendur að þjóð sé „stór hópur fólks með sameiginlega tungu, menningu og sögulegar erfðir og tilfinningu fyrir einingu sinni“.  Út frá þessari skilgreiningu hljóta að búa margar þjóðir í þessu landi eins og í svo mörgum öðrum löndum.  Fólk frá sama landi kemur saman á grundvelli þjóðernis síns, sem hefur sameiginlega tungu og hefur tilfinningu fyrir einingu sinni.  Þetta sjáum við bæði hér á landi og erlendis.  Þekkt er að Íslendingar sem búa erlendis hafa með sér félagsskap og kemur saman á þjóðhátíðardegi lands okkar eða við önnur tækifæri.  Meira að segja fólk af íslensku bergi brotið í Vestuheimi kemur saman á Íslendingadegi og jafnvel við fleiri tækifæri þó sameiginlegur arfur þeirra sé í gegnum marga ættliði. Hér á landi þekkjum við að fólk frá sama landi heldur hópinn og talar saman á móðurmáli sínu og við Íslendingar höfum ekki mikið þol fyrir því að fólkið tali bjagaða íslensku eða alls ekki íslensku.  Við heyrum oft að forsendan fyrir því að hægt sé að taka þátt í þjóðfélagi okkar sé að þau sem hingað flytji læri okkar tungumál.  Komið hefur fram að tungumál okkar sé í útrýmingarhættu.  Að innan aldar verði annað tungumál talað hér á landi, ef landið verður þá í byggð.  Líklegt er að það verði ekki vegna þess að þau sem hingað flytja tali bara sitt móðurmál.

Sameiginlegt tungumál er eitt af því sem gerir stóran hóp fólks að þjóð.  Samkvæmt því eru þó nokkrar þjóðir hér á landi.  Ljóst er þó að þegar þjóð ber á góma er hópur fólks að baki.  Hópur sem á eitthvað sameiginlegt eða að eitthvað sameinar hópinn.  Orðinu þjóð er skeytt framan við það sem hópurinn á saman.  Við tölum um  Þjóðskáld  Þjóðfána   Þjóðleikhús   Þjóðargersemi   Þjóðminjasafn   Þjóðkirkju   Þjóðarbókhlöðu   Þjóðlendur   Þjóðsöng  Þjóðmenningu   Þjóðarverðmæti.    Við notum ekki forskeytið ríkis eða lands fyrir framan þessi hugtök, heldur þjóð.

Sameiginleg menning er atriði sem gerir stóran hóp fólks að þjóð.  Menning er samkvæmt orðabók menningarsjóðs „þroski mannlegra eiginleika mannsins, það sem greinir hann frá dýrum, þjálfun hugans, andlegt líf, sameiginlegur arfur“.  Þetta er býsna fjölbreytt skilgreining.  Hvað varðar hið síðast nefnda, sameiginlegan arf, þá hafa t.d. verið sett lög um menningarminjar og starfsemi safna sem varðveita menningararfinn.  Um tilgang þeirra laga segir á vef forsætisráðuneytisins:  „Tilgangur laga um menningarminjar og starfsemi safna er að stuðla að verndun menningarminja og tryggja að íslenskum menningararfi verði skilað óspilltum til komandi kynslóða og að skil menningarverðmæta til annarra landa fari að lögum. Með menningarminjum er átt við fornminjar, menningar- og búsetulandslag, kirkjugripi og minningarmörk, hús og önnur mannvirki, skip og báta, samgöngutæki, listmuni og nytjahluti, svo og myndir og aðrar heimildir um menningarsögu þjóðarinnar. Lög um menningarminjar ná einnig til staða sem tengjast menningarsögu þjóðarinnar. Þjóðminjar teljast jarðfastar minjar eða lausir gripir eða hlutir sem hafa sérstaka merkingu fyrir sögu Íslands. Þjóðminjar skulu verða friðlýstar eða varðveittar í Þjóðminjasafni Íslands eða á vegum þess í viðurkenndum söfnum. Til þjóðarverðmæta teljast hvers konar menningarminjar sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenska þjóðmenningu.“

Skráð trú- og lífsskoðunarfélög

Þjóðkirkjan er vörsluaðili mikilla menningarverðmæta, sem eru kirkjur landsins og gripir þeirra.  Kannski kemur að því að helgistaðir annarra trúarbragða verði talin menningarverðmæti.  Það er nefnilega ekki bara kristið fólk sem byggir þetta land.  Önnur trúarbrögð eru ástunduð hér á landi eins og kunnugt er.   Skráð trú- og lífsskoðunarfélög 1. janúar 2015 voru 41 talsins.  Þar af eru 29 kristnar kirkjudeildir,  3 Búddísk samfélög, 2 múslimafélög, 2 hálfkristnar kirkjudeildir, 2 ásatrúarfélög , 1 baháífélag og 1 lífsskoðunarfélag.  Þetta er býsna fjölbreytt.  Ef þjóð er hópur fólks sem sameinast um eitthvað ákveðið þá má segja að samkvæmt trúfélagsskráningunni séu nokkrar þjóðir í landinu.  Sýn þessara „þjóða“ á lífið er mismunandi.  Trúarbrögð móta lífsskoðanir og lífsstíl fólks og hafa áhrif á sjálfsmyndina. T.d. kom fram í könnun, sem reyndar er ekki alveg búið að vinna úr, að kristnir karlar sem eru forsjárlausir feður leita réttar síns og vilja fá svör og lausnir vegna mála sinna hjá stofnunum ríkisins á meðan múslimskir karlmenn í sömu stöðu leita til trúarsamfélagsins í slíkum aðstæðum.

Það er lífsstíll að vera kristinnar trúar.  Þórir Kr. Þórðarson, sem var prófessor í Gamla-testamentisfræðum í guðfræðideild Háskóla Íslands,  sagði í grein sem hann skrifaði og nefndi „Í leit að lífsstíl“:  „Það er nýjung í sögu kynstofnsins að þurfa að leita að lífsstíl.  Andarunginn á Tjörninni lærir af mömmu sinni öll viðbrögð og hvernig hann á að bregðast við í vatninu.  En hrynjandi viðbragðanna, „lífsstíllinn“ sem hann temur sér er að öðru leyti fastbundinn, prógrammeraður í erfðavísunum, genunum.  Um sumt er atferli mannsins einnig bundið erfðum.  En að öðru leyti er honum á annan veg farið.

Hrynjandi þjóðfélagslífsins hefur raskast í byltingu samtímans.  Þess vegna er sú óvænta staða upp komin, að ungt fólk þarf að líta yfir alla mögulega lífsstíla eins og marglit leikföng í krambúðarhillu og velja sér lífsstíl“ segir doktor Þórir í greininni.

Á prestastefnunni, sem lauk í gær var skoðað hverjum Þjóðkirkjan er að boða erindi sitt.  Skoðaðar samfélagsbreytingar liðinna ára og staða kirkjunnar með tilliti til þess.  Til dæmis voru kynntar 2 kannanir sem verið er að vinna úr.  Annars vegar rannsókn á viðhorfum og gildismati framhaldsskólanema um  hvernig ungt fólk talar um trú og trúarbrögð?  Og hins vegar samfélagsbreytingar og sjónum beint að trúarlífi og kirkju.   Í setningarræðunni sagði ég m.a. eftirfarandi:

“Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fjölmenningarsamfélagið hefur hafið innreið sína í íslenskt samfélag.  Það minnir okkur á að við erum hluti af stærri heild, sem er heimurinn allur.  Það er ekkert nýtt að þjóðflokkar búi saman, fólk af mismunandi þjóðerni með mismunandi tungumál.  Heimsmyndin er breytt, hið íslenska þjóðfélag er breytt.  Þeim fjölgar hér á landi sem aðhyllast aðra trú en kristna.  Í tæpan áratug hefur samráðsvettvangur trúfélaga starfað hér á landi.  Markmiðið með honum er að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi. Samtal er besta leiðin til skilnings og lausna.   Þjóðkirkjan hefur lagt sig fram um að auðvelda innflytjendum lífið hér og hefur haft prest þeim til þjónustu um árabil.  Einnig hafa margir söfnuðir landsins haft sameiginlegt starf og messuhald þar sem innflytjendur taka virkan þátt”.  Það má líka geta þess að prestur innflytjenda sinnir hælisleitendum mikið sama hverrar trúar þeir eru.   Þjóðkirkjan þjónar öllum ekki bara meðlimum sínum, þess vegna er hún Þjóðkirkja og hefur mikið samfélagslegt hlutverk. Þá er stutt í umræðuna um hvort hægt sé að aðgreina trúna frá samfélaginu,  hvort hún sé einkamál og eða samfélagsmál.

Biblían

Við guðfræðingar leitum gjarnan í stjórnarskrá okkar, sem er Biblían þegar við fjöllum um mál og skoðum málefnin.  Í 1. Mósebók stendur t.d.: “Hemor og Síkem, sonur hans, komu í hlið borgar sinnar, tóku borgarbúa tali og sögðu: 21„Þessir menn eru okkur vinveittir. Leyfum þeim að setjast að í landinu og fara allra sinna ferða því að nóg er landrýmið handa þeim. Tökum okkur dætur þeirra fyrir konur og gefum þeim dætur okkar. 22En því aðeins vilja mennirnir verða við bón okkar og búa meðal okkar þannig að við verðum ein þjóð, að við látum umskera allt karlkyns meðal okkar eins og þeir eru umskornir“  Þarna er talað um blöndun Hevíta og Gyðinga sem reyndar varð ekki af en um það má nánar lesa í 36. kafla bókarinnar.  Þarna er landrýmið sem nóg er af ein forsenda þess að fólkið geti búið saman sem ein þjóð.  Þarna er blóðblöndunin ein forsendan að synir Gyðinga taki sér dætur Hevíta og væntanlega þá fjölgi sér og þannig blandist þessar tvær þjóðir saman og þarna eru ákveðin skilyrði frá Gyðinganna hálfu fyrir því að þeir vilji verða ein þjóð með Hevítum, þ.e. að þeir umskerist en það var einskonar trúartákn karlanna.  Ef við heimfærum þetta upp á okkar land þá væri það þannig að forsendan fyrir því að við yrðum ein þjóð í landinu að vera sú að þeir sem hingað flytja væru frjálsir hvað búsetu varðar, myndu blanda blóði við hina „hreinu“ Íslendinga og tækju upp kristnar siðvenjur.  En það er líka talað um það í Biblíunni, bæði í Gamla-testamentinu og Nýja-testamentinu að við eigum að vera gestrisin.  „Verið gestrisin hvert við annað án þess að mögla“  segir Pétur postuli t.d. í fyrra bréfi sínu.  Þarna minnir Pétur kristna söfnuði í Litlu-Asíu á stöðu þeirra sem kristinna manna.

Þegar flóttamennirnir komu frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu þá settust þeir fyrst að hér á Ísafirði.  Það er athyglisvert að rifja upp hvernig staðið var að móttöku þeirra.  Hver fjölskylda fékk sína íslensku stuðningsfjölskyldu sem hún gat ráðfært sig við, fengið hjálp og leiðbeiningar m.a. við að læra á samfélagið.  Það var búið að finna íbúðir og húsbúnað.  Þeim var gert kleift að læra tungumálið með því að fara á námskeið og fleira mætti nefna.  Móttökurnar voru allar á þann veg að fólkið gæti aðlagast í nýju landi.  Finndi sig heima í samfélaginu en ekki eins og utanaðkomandi þjóð meðal þjóðar.

Á Ísafirði á mínum uppvaxtarárum var fólk af erlendu bergi teljandi á fingrum annarrar handar.  Ekki man ég til þess að hugsað væri um þau sem framandi í samfélaginu.  Þetta var bara svona.  En nú er öldin önnur.  Að vísu er það svo eins og með umræðuna um kirkjuna að í nærsamfélaginu er hún allt önnur en í fjölmiðlunum.  Í nærsamfélaginu virðist fólk sem flytur til landsins hafa aðra stöðu en í fjölmiðlum.  Að vísu er orðræðan svipuð, ef eitthvað fer úrskeiðis er minnst á þjóðerni hins meinta brotamanns sé hann af erlendu bergi bortinn.

Það eð trú er lífsafstaða hlýtur hún að hafa áhrif á hverja mannveru sem aðhyllist trú.   Í kristinni trú ástundum við ekki innhverfa íhugun heldur frekar úthverfa íhugum.  Trúin felur í sér að við leitum út fyrir okkur sjálf, til náungans, sem við eigum að hjálpa og sinna hver sem hann er og hvaðan sem hann kemur.   Sagan um miskunnsama samverjann fjallar t.d. um þetta.  Við eigum líka að blanda geði við þau sem ekki eru eins og við.  Um það vitnar sagan um samtal Jesú við samversku konuna í 4. kafla Jóhannesarguðspjalls.  Það er reyndar margt fleira í þeirri sögu en samtal Gyðings og Samverja en hún segir okkur hvernig trúin verður sameiginleg þeim báðum eftir samtal.

“Nú kemur hann til borgar í Samaríu er Síkar heitir, nálægt þeirri landspildu sem Jakob gaf Jósef syni sínum. Þar var Jakobsbrunnur. Jesús var vegmóður og settist þarna við brunninn. Þetta var um hádegisbil.
Samversk kona kemur að sækja vatn. Jesús segir við hana: „Gef mér að drekka.“ En lærisveinar hans höfðu farið inn í borgina að kaupa vistir.
Þá segir samverska konan við hann: „Hverju sætir að þú, sem ert Gyðingur, biður mig um að drekka, samverska konu?“ [En Gyðingar hafa ekki samneyti Eða: nota ekki sömu ílát og Samverjar. við Samverja.] Vantar í sum handrit. (framhald sögunnar má lesa í Jóhannesarguðspjalli 4. kafla)

Eitt er það sem bendir til þess að hér búi fleiri en ein þjóð í þessu litla landi og það er orðræðan.  Okkur hættir til að tala um okkur og þau.  Við og þau í stað þess að tala um okkur sem hér búum sem eitt og sama fyrirbærið, þ.e. fólk á ferð á lífsins vegi.  Við getum af þeim lært eins og þau af okkur.  Vissulega er betra að skilja það tungumál sem talað er í landinu og geta tjáð sig á því en það getur aldrei verið forsendan fyrir því að fá að tilheyra hópnum.

Þegar við erum börn þá er heimurinn eins og við sjáum hann með augum barnsins.  Höldum að heimurinn sé bara eins og þau sjá hann.  Nú til dags alast börnin upp við aðrar aðstæður en mín kynslóð.  Þau alast upp við heim fjölmenningar og átta sig sennilega betur á því að það er til fleira í veröldinni en þeirra litli heimur.  En þau alast ekki endilega upp við það að elska landið sitt, bæinn sinn, fjöllin sín og umhverfi sitt eins og mín kynslóð gerði.  Þeirra „land“ er heimurinn allur og hvort þau kynni sig sem Íslendinga í framtíðinni þegar þau hitta ókunnuga í Kína, Kenía eða Kanada er ekki víst.  Og varla vefjast mismunandi tungumál fyrir þeim.  Þau eru orðin tvítyngd á grunnskólaaldri þó báðir foreldrarnir séu fæddir hér og uppaldir.

Börnin

Og þó það hafi ekkert með þjóð að gera þá er sú saga sögð, sem lýsir þröngum heimi barnsins á síðustu öld, að eitt sinn kom maður heim til Ólafs Gauks.  Anna Mjöll dóttir hans spurði þá föður sinn, í hvaða hljómsveit er væri?  Auðvitað hélt blessað barnið að maðurinn væri í hljómsveit eins og foreldrar hennar og flestir í kringum hana.  Það kom ekki í hug hennar að einhverjir fullorðnir gerðu eitthvað annað en að vera í hljómsveit.

Nú til dags er heimur barna sennilega flóknari.  Barnabarn mitt veit að mamma er hjúkka, pabbi er í skóla, Hannes afi er kennari, Skúli afi er lögga, Anna amma vinnur í banka og Agnes amma er fiskup(biskup).

„Hvað búa eiginlega margar þjóðir í þessu litla landi?“

Þeirri spurningu verður ekki svarað í einni setningu.  Um það vitnar hin fjölbreytta dagskrá ráðstefnunnar.

Hvort þær eru 47, 46, eða bara ein þjóð stendur enn sem spurning sem þarf ekkert að svara.  Við sem höfum fæðst hér á þessari eyju norður í höfum höfum ekki einkarétt á því að búa hér heldur eigum að bjóða þau velkomin sem vilja deila kjörum með okkur og auðga menningu okkar.

RÁÐSTEFNA UM ÍSLENSKA ÞJÓÐFÉLAGIÐ HALDIN Á ÍSAFIRÐI 17.-18. APRÍL 2015. Erindi flutt í Háskólasetrinu á Ísafirði 17. apríl 2015.