Setning leikmannastefnu 18. apríl 2015

Kæru fulltrúar á leikmannastefnu og gestir. Ég býð ykkur velkomin til leikmannastefnu. Eins og fram kemur í samþykktum um leikmannastefnu þá er Leikmannastefna „vettvangur almennra skoðanaskipta um málefni leikmanna og faglegur sam­ráðs­vettvangur aðila. Hún fjallar um málefni leikmanna, hlutverk og störf sókna og sóknarnefnda, svo og um starf kristi­legra félagasamtaka og aðra þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins.“ Einnig segir í samþykktunum um leikmannastefnu: „Kemur sameiginlega fram fyrir hönd leikmanna, sókna og sóknarnefnda gagnvart stjórnvöldum, stofnunum kirkjunnar, starfsmönnum hennar og samtökum þeirra svo og öðrum aðilum eftir því, sem við á. Eflir þátttöku leikmanna í starfi kirkjunnar og kynni þeirra sín á milli“.

Þakka ykkur fyrir að taka þátt í starfi kirkjunnar í sóknum ykkar og gefa af tíma ykkar og kröftum til eflingar guðsríkisins. Leikmannastefnan er kjörinn vettvangur til að hittast og ráðum ráðum. Einnig þakka ég Magnhildi Sigurbjörnsdóttur og leikmannaráði fyrir undirbúning þessarar 29. leikmannastefnu Þjóðkirkjunnar.

Sóknargjöldin

Sóknargjöldin hafa verið mikið til umræðu síðast liðin ár. Að minnsta kosti þrír ráðherrar kirkjumála hafa fengið nefndir til starfa til að skoða það hvort kirkjunnar fólk hafi rétt fyrir sér þegar það segir að sóknargjöldin hafi verið skorin niður 25% umfram almennan niðurskurð stofnana innanríkisráðuneytisins. Sú fyrsta, sem Ögmundur Jónasson skipaði í sinni ráðherratíð studdi þessa skoðun kirkjunnar fólks, önnur, sem Hanna Birna Kristjánsdóttir skipaði tók undir þau sjónarmið og lagði til að gerður yrði samningur um sóknargjöldin. Ekkert varð þó af því þar sem ráðherrann hætti. Þriðji ráðherrann, Ólöf Norðdal fékk fyrrum ríkisendurskoðanda til að fara yfir málið sem tók undir niðurstöðu fyrri nefnda og nú vonum við að eitthvað gagnlegt fari að gerast í sambandi við sóknargjöldin. Að vísu var grunnur sóknargjaldanna hækkaður um 14 krónur á þessu ári og auðvitað munar um það þó miklu betur þurfi að gera til endar nái saman í rekstri sóknanna. Staðan er engan veginn eins og hún á að vera og verður um þetta fjallað hér í dag samkvæmt dagskrá.

HÍB

Það hefur vonandi ekki farið fram hjá neinum að Hið íslenska biblíufélag á 200 ára afmæli í ár. Um Biblíuna verður einnig fjallað hér í dag sem og þjóðfélag okkar sem Orð Guðs er talað til á okkar tungu. Biblíufélagið er stofnað í heimsókn skotans Ebenesers Henderson, sem kom hingað færandi hendi með biblíur. Það var stofnað á prestastefnu, mánudaginn 10. júlí árið 1815. Landinn hafði þó haft aðgang að Orði Guðs á íslensku fyrir þann tíma eins og kunnugt er, því Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar kom út í apríl 1540. Það er elsta bók sem varðveist hefur á íslensku.
Biblían öll kom út fyrst árið 1584 og hún er kennd við Guðbrand Þorláksson biskup á Hólum. Hún var 17.prentun Biblíunnar í öllum heiminum. En það var ekki fyrr en með 5. útgáfunni að Biblían varð almenningseign á Íslandi, árið 1813.

Gleðildagarnir

Við erum nú á því tímabili kirkjuárs sem nefndir hafa verið gleðidagar. Það eru dagarnir milli hátíðanna tveggja páska og hvítasunnu. Við lifum í skini páskasólarinnar, dveljum í páskaboðskapnum gleðilega, „hann lifir, hann lifir, hann lifir enn“ segir í söng einum sem hefst á orðunum „Upprisinn er hann, húrra, húrra“. Á þessu tímabili eru lesnir biblíutextar sem segja frá hvernig lærisveinarnir nutu samverunnar við hinn upprisna Jesú. Þær voru gleðilegar, komu þeim jafnvel gleðilega á óvart, höfðu djúpstæð áhrif á þá og gáfu þeim djörfung og dug til að miðla þeirri gleði og þeim boðskap. Þeir gerðu líka eins og Jesús bað, fóru og sögðu frá eins og segir í lokaorðum Matteusarguðspjalls: „1En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. 1Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“
Þennan boðskap höfum við fengið í arf frá fyrri kynslóðum, fengið að reyna samfélagið við hinn upprisna frelsara og höldum áfram að bera hann áfram til næstu kynslóða. Það er þakkarvert að fá að búa í landi þar sem óheftur aðgangur er að Orði Guðs og frelsi til að iðka trú sína.

Sálmabókin

Viðbætir við sálmabókina kom út árið 2013. Á prestastefnunni sem stóð yfir í vikunni var mikið sungið úr henni. Þar eru bæði sálmar sem við höfum heyrt áður og nýir sálmar sem komið hafa til sögunnar meðal annars vegna hins svokallaða sálmafoss, sem haldinn hefur verið á menningarnótt í Reykjavík um nokkurra ára skeið. Þá flytja kórar Hallgrímskirkju nýja sálma, prufukeyra þá ef svo má segja og hafa margir þeirra ratað inn í þessa bók. Það er stefnt að því að ný sálmabók komi út árið 2017 sem er stórt ár í sögu hinnar lútersku kirkju þegar siðbótar Lúters verður um minnst í Lúterskum kirkjum um allan heim.

2017

Í nokkur ár hefur undirbúningur fyrir afmælið staðið. Hér á landi hefur nefnd verið starfandi á vegum kirkjunnar í 3 ár og svo eru fleiri að huga að þessum málum m.a. þau er standa að heimasíðunni 2017.is. Í fyrra fór starfsfólk biskupsstofu til Wittenberg og gróðursetti eplatré í garð sem verður með 500 trjám árið 2017. Lúter sagði eitt sinn: „Þótt ég vissi að heimsendir yrði á morgun þá myndi ég planta eplatré í dag,“ Þessi tilvitnun er rótin að fallegum minnisvarða um siðbótina í Wittenberg, sem er ekki stytta heldur 500 trjáa garður. Okkar tré er nr. 249 en lúterskar kirkjur víðs vegar að úr heiminum gróðursetja tré þarna. Okkur var uppálagt að gróðursetja tré hér á landi og gerði starfsfólk biskupsstofu það í fyrra. Þá var birkitré gróðursett í Skálholti. Eplatréð í Wittenberg mun bera ávöxt og stefnt er að því að börn úr grunnskóla í Wittenberg taki að sér að tína epli og aðra ávexti af trjánum, borða eitthvað af þeim, búa til vörur og selja í þágu góðs málstaðar.

Leikmannastefnan

Leikmannastefnan er eins konar ávöxtur af Lúterstré og biblíutré. Þið komið hér og farið heim með þann ávöxt er leggur af mörkum við að metta andlega munna. Án ykkar gæti kirkjan ekki starfað um land allt. Án ykkar gæti Þjóðkirkjan ekki séð um allar þær menningarminjar sem okkur hefur verið falið að gæta og varðveita. Þjónusta leikmanna er því jafn mikilvæg og önnur vígð þjónusta í kirkjunni. Saman vinnum við að því koma fagnaðarerindi Guðs til samferðafólksins. Saman vinnum við að því að efla guðs kristni í landi okkar. Saman vinnum við að því að gera Orð Guðs sýnilegt í verkum okkar. Guð gefi okkur styrk og vit til þess.

Guð blessi leikmannastefnuna, fundarhöldin og hvert og eitt ykkar.

Leikmannastefnan árið 2015 er sett.

Setning leikmannastefnu 18. apríl 2015 í Hafnarfjarðarkirkju.