Um tillögu Viðskiptaráðs að ríkið selji kirkjur

Fram hefur komið að Viðskiptaráð telji rétt að ríkissjóður losi um eignarhald sitt á þeim 22 kirkjum sem eru í eigu ríkisins. Af þeim kirkjum sem eru á lista Viðskiptaráðs eru a.m.k. sex í Húsasafni Þjóðminjasafns Íslands.

Í ýmsum tilvikum getur einfaldlega verið um að ræða að leiðrétta þurfi skráningu í fasteignaskrá og færa eignarhald á viðkomandi sókn.  Að öðru leyti skal ekkert sagt um það hvort þessi listi er réttur eða ekki en ljóst er að flestar þær kirkjur, sem taldar eru upp á listanum, hafa verið notaðar og reknar á vegum sóknanna sem þær eru í.  Ég sé ekki að söfnuðirnir eigi að kaupa hús sem þeir hafa viðhaldið og rekið um árabil, kannski frá upphafi.  Eignarhaldið breytir engu um notkun, viðhald og rekstur. Hér sýnist mér hugsunin frekar vera sem um „tiltekt“ sé að ræða þannig að eignarhald sé hjá þeim sem nota húsið og sjá um rekstur þess og viðhald.

Kirkjur hafa áður verið seldar svo að sala á þeim er engin nýlunda. Sumar hafa verið afhelgaðar og seldar eins og t.d. gamla kirkjan á Eskifirði og Stöðvarfirði og á fleiri stöðum. Vert er að vekja athygli á þeim mikla menningararfi sem kirkjur landsins eru.  Söfnuðir landsins, með sóknarnefndirnar í forystu fyrir sameiginlegum málum þeirra, viðhalda þessum menningararfi, standa vörð um hann og sjá um viðhald og rekstur. Þeim sem koma í kirkjurnar hefur fjölgað mjög. Sú aukning tekur bæði til þeirra sem sækja athafnir og til ferðamanna. Svo dæmi sé tekið þá gátu komið á minni tíð í Bolungarvík um 600 manns í Hólskirkju á einum degi. Það er gleðiefni en um leið umhugsunarefni.

Sóknarnefndarfólk sem telur hundruð vítt og breytt um landið er þá sett í þá stöðu að finna leiðir til greiðslu kostnaðar af þessari auknu umferð og fleiru sem viðkemur kirkjuhúsinu án aðkomu ríkisvaldsins sem heldur utan um málaflokkinn menningararf. Tillaga Viðskiptaráðs á sölu kirknanna sem sýnist eins og áður segir vera „tiltekt“ frekar en eiginleg sala gefur tilefni til að huga einnig að því hvernig varðveislu menningararfsins verður fyrir komið í framtíðinni.