Kirkjuhúsið áfram í miðju mannlífsins

Á fundi Kirkjuráðs á föstudaginn var ákveðið að hafna öllum kauptilboðum í húseignina að Laugavegi 31, þar sem Biskupsstofa og tengd starfsemi hefur verið til húsa í áratugi. Húsið var auglýst til sölu og talsverð umræða skapaðist í kjölfarið, enda er húsið áberandi og á eftirsóttum stað í miðbæ Reykjavíkur. Tilboðin uppfylltu ekki þær væntingar sem lagt var upp með. Sjálf fagna ég því að niðurstaða sé fengin og að Kirkjuhúsið muni standa áfram við Laugaveg, sýnilegt og aðgengilegt öllum. Ég fagna því að veraldleg mál af þessum toga séu leidd til lykta, enda er mikilvægt að þau taki ekki of mikinn tíma frá kærleiksstarfi kirkjunnar. Það er nefnilega svo, að kirkjan er ekki hús heldur lifandi samfélag fólks sem trúir á Jesú og hið góða í heiminum.