Biskupsstofa meðal hástökkvara ársins

sfrSamkvæmt árlegri starfsánægjukönnun SFR (Stofnun ársins) hafa miklar breytingar orðið á vinnustaðnum okkar á aðeins fáeinum mánuðum. Biskupsstofa hækkar í könnuninni um 46 sæti milli ára og er því meðal hástökkvara ársins! Aðeins Lögreglan í Vestmannaeyjum hækkaði meira eða um 50 sæti, sem er frábær árangur.

Óneitanlega gladdi niðurstaðan mig mikið. Starfsfólk Biskupsstofu hefur oft haft vindinn í fangið, en ekki látið það trufla sín góðu störf. Það hefur þvert á móti þjappað sér saman og skapað góðan vinnustað sem við trúum að hafi mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu.

Jákvæðar breytingar hafa orðið á nær öllum starfsánægjuþáttum sem könnunin nær til. Mesta breytingin hefur orðið á starfsandanum og ánægju og stolti af vinnustaðnum. Eini ánægjuþátturinn sem breytist nær ekkert milli ára er upplifun starfsfólks af ímynd Biskupsstofu. Sú niðurstaða kemur reyndar ekki á óvart, því erfið innri mál kirkjunnar hafa oft fengið mikla athygli og skoðanamótandi aðilar verið gagnrýnir á okkar störf, skipulag kirkjumála og trúarbrögð almennt. Við kveinkum okkur ekki undan því, enda eru opin og heiðarleg skoðanaskipti nauðsynleg í okkar góða samfélagi.

Mín skoðun er afdráttarlaust sú, að við eigum að hlusta á gagnrýnisraddir og leggja okkur fram við að bæta okkur.  Við getum gert betur, greint betur frá skoðunum okkar og leyst innri mál með friðsömum hætti. Við eigum að halda áfram að þjóna  fólki í gleði þess og sorg, óháð skoðunum þess, gildum, uppruna o.s.frv., ekki vegna trúarskoðana þess heldur okkar eigin.   SFR á hrós skilið fyrir að standa að þessari árlegu starfsánægjukönnun meðal starfsfólks í almannaþjónustu. Hún gefur góðar vísbendingar um stöðu mála og er leiðarvísir um hvar skóinn kreppir.