Páskasólin skín á gleðivegi

Þegar vorið nálgast vaknar náttúran til lífsins og minnir okkur á að lífið er sterkara en dauðinn. Það gera páskarnir einnig því þá minnumst við kristið fólk upprisu Jesú. Þegar lífið sigraði dauðann, ósigurinn breyttist í sigur, bölið í blessun.

Við sem búum á norðlægum slóðum við dimman vetur hálft árið þráum birtu og yl vorsins. Hátíð hátíðanna eins og páskar eru oft nefndir, sjálfan páskadaginn ber upp á fyrsta sunnudag eftir fyrsta fulla tungl eftir jafndægri á vori. Þess vegna eru páskar ekki alltaf sama dag á hverju ári eins og jólin.
Páskaleyfið er mörgum kærkomið til að ferðast eða breyta út af vana hversdagsins. Margt er í boði til afþreyingar svo það eru margir sem ekki geta farið í frí heldur sinna sínum skyldum til að þjóna samferðafólki sínu. Auglýsingar heyrast um ævintýralega páska. Hvíld er nauðsynleg til uppbyggingar og tilbreytingin sem páskaleyfinu fylgir er dýrmæt.

Boðskapur páskanna gefur kraft til að halda áfram á lífsins vegi því hann fjallar um lífið og allt það góða sem því fylgir. Hann fjallar um vonina sem aldrei bregst og gleðina sem því fylgir að vera til. Dagarnir eftir páska og fram að hvítasunnu eru nefndir gleðidagar. Við gleðjumst yfir því að fá að lifa í skyni páskasólarinnar, melta upprisuboðskap páskanna, sem færir gleði og birtu í líf okkar.

Kirkjur landsins eru opnar fyrir gestum og gangandi og messur eru í hverju prestakalli á páskum eins og flesta sunnudaga ársins.

Ítrekaðar rannsóknir gefa sterkar vísbendingar um að trúað fólk sé hamingjusamara en samanburðarhópar. Rannsóknirnar staðfesta að trú á Guð eykur jákvæðni sem og þátttaka í starfi sem byggir á trúarlegum gildum. Þeir sem velta fyrir sér og leita að tilgangi lífsins mælast hamingjusamari en aðrir og jafnvel heilsuhraustari. Kristin gildi byggjast á boðskap Jesú, boðskap sem leggur áherslu á kærleika, gleði, frið, góðvild, trúmennsku, hógværð, auðmýkt og sjálfsaga. Boðskapur kristinnar trúar lætur okkur muna eftir skapara okkar, meðbræðrum okkar og systrum og bera virðingu fyrir sjálfum okkur.

Með þessi gildi að leiðarljósi óska ég þér gleðilegrar páskahátíðar.

Greinin birtist upprunalega á kjarninn.is