Frelsi eða fjötrar

Undanfarna mánuði hefur mátt lesa fréttir af fíkniefnaneyslu ungmenna og jafnvel dauða þeirra af hennar völdum.  Foreldrar, fjölskyldur og vinir hafa syrgt og kallað eftir umræðu um málið og aðgerðum til að leysa ástvinina og þau öll sem orðið hafa eitrinu að bráð undan ástandinu.

Einnig hefur mátt lesa frásagnir af uppdópuðu fólki að fara inn á heimili fólks til að ná í verðmæti, væntanlega m.a. til að fjármagna neysluna.   Fleiri fréttir hafa líka borist t.d. af árekstri bifreiða þar sem tjónvaldurinn hefur verið undir áhrifum fíkniefna.   Eitt slíkt dæmi þekki ég persónulega og mátti ekki miklu muna að dauðinn kvæði dyra í því tilviki.  Fréttin sem sögð var í fjölmiðlum af þeim árekstri var að ekki hafi orðið slys á fólki.  Annað hefur reyndar komið á daginn því áverkar koma oft í ljós eftir á.

Slíkar fréttir draga athygli mína að því samfélagslega meini sem fíkniefnaneysla er.  Af hverju þarf fólk að neyta fíkniefna til að öðlast frelsið en það er það sem margir sækjast eftir og finna þegar víman hefur tímabundið tekið völdin. Það er vitað að til lengdar endist slíkt frelsi ekki heldur setur fíkilinn í fjötra sem erfitt er að losna úr.

Svokallað læknadóp gengur kaupum og sölum.  Upphaf þess má væntanlega rekja til lyfseðils sem skrifaður hefur verið og leystur út í lyfjabúð.

Það er ekki einkamál viðkomandi hvort hann eða hún neytir eiturefna.  Vandamálið sem af því hlýst er samfélagslegt vandamál sem okkur ber skylda til að taka höndum saman um að leysa. Það hlýtur að vera mikið að í samfélaginu ef engin önnur leið er til vellíðunar en þessi.  Það verður að finna aðrar leiðir heldur en dóma um sektir og fangelsisvist.  Helsjúkir fíklar eru margir vistaðir í fangelsum landsins.

„Ég er líka dauðlegur maður eins og allir aðrir,
niðji þess sem fyrstur var skapaður af jörðu.
Líkami minn mótaðist í móðurlífi
2 á tíu mánuðum. Ég varð til í blóði hennar
af sæði karls í unaðsvímu.
3 Þegar ég fæddist dró ég að mér sama loft og aðrir,
var lagður á sömu jörðina og ber alla menn.
Eins og hjá öllum öðrum var grátur fyrsta hljóðið
sem ég gaf frá mér.
4 Vafinn var ég reifum og að mér hlúð með umhyggju.
5 Ekki einu sinni konungur hefur hafið feril sinn á annan hátt.
6 Einn er vegur allra inn í lífið og söm er leiðin út.
7 Þess vegna bað ég Guð og hann gaf mér hyggindi.
Ég ákallaði Guð og andi spekinnar kom til mín.”

Speki Salomons 7. kafli.

Verum hyggin og biðjum um anda speki.  Tökum höndum saman og finnum leiðir til lausnar.  Þjóðkirkjan skorast ekki undan þeirri samfélagslegu ábyrgð að taka þátt í þeirri vegferð.

Pistillinn birtist upprunalega í Morgunblaðinu laugardaginn 18. ágúst.