Helstu verkefni

Biskup Íslands fer með yfirstjórn þjóðkirkjunnar ásamt öðrum kirkjulegum stjórnvöldum eftir því sem nánar er mælt fyrir um í lögum.

Biskup Íslands hefur tilsjón með kristnihaldi, kenningu kirkjunnar og starfi hennar í landinu. Hann er forseti kirkjuráðs. Hann fylgir eftir reglum er kirkjuþing setur, samþykktum kirkjuþings og markaðri stefnu þess og prestastefnu og hefur ákvörðunarvald um einstök mál, nema þau heyri undir önnur stjórnvöld þjóðkirkjunnar samkvæmt lögum.

Biskup Íslands vígir Gunnar Stíg Reynisson í Skálholtskirkju

Prestsvígsla í Skálholtskirkju

Biskup vígir kirkjur. Biskup vígir presta og djákna og setur þeim vígslubréf.

Biskup Íslands hefur yfirumsjón með kirkjuaga innan þjóðkirkjunnar og beitir sér fyrir lausn ágreiningsefna sem rísa kunna á kirkjulegum vettvangi.

Biskup Íslands skal kalla vígslubiskupa til fundar svo oft sem þurfa þykir. Biskupafundur skal m.a. búa þau mál er varða kenninguna, helgisiði og helgihald í hendur prestastefnu og gera tillögur um skipan sókna, prestakalla og prófastsdæma til kirkjuþings.

Kirkjuráð fer með framkvæmdarvald í málefnum þjóðkirkjunnar. Kirkjuráð er, auk biskups Íslands, skipað fjórum mönnum, tveimur guðfræðingum og tveimur leikmönnum sem kirkjuþing kýs og skulu varamenn kosnir með sama hætti. Kosið skal í kirkjuráð á fyrsta kirkjuþingi að aflokinni kosningu.

Biskup Íslands boðar til almennrar prestastefnu og er forseti hennar. Á prestastefnu skal fjalla um málefni prestastéttarinnar, svo og önnur kirkjuleg málefni. Prestastefna hefur tillögu- og umsagnarrétt um mál er varða kenningu kirkjunnar og helgisiði og annars heyra undir biskup og kirkjuþing.

Biskup Íslands útnefnir prófasta úr hópi presta. Prófastar eru fulltrúar biskups Íslands í prófastsdæmum og trúnaðarmenn hans og hafa í umboði hans almenna tilsjón með kirkjulegu starfi þar. Biskup getur útnefnt prófasta til að hafa umsjón með tilteknum þáttum kirkjulegrar þjónustu.

Biskup Íslands boðar til almennrar leikmannastefnu til að fjalla um málefni leikmanna, safnaða, hlutverk og störf sóknarnefnda, svo og um önnur mál er lúta að þjónustu kirkjunnar við söfnuði landsins og kristileg félagasamtök.

Ráðherra skipar í embætti sóknarpresta. Biskup Íslands skipar í önnur prestsembætti.

Þegar prestakall eða prestsstaða losnar eða nýtt prestakall er stofnað auglýsir biskup Íslands embættið með fjögurra vikna umsóknarfresti hið skemmsta.

Ráðherra veitir þeim embætti sóknarprests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu, að fenginni tillögu biskups. Biskup Íslands veitir þeim embætti prests sem hlotið hefur bindandi val en ákvarðar að öðrum kosti veitingu.

Biskupi Íslands er heimilt að ákveða að í prófastsdæmum starfi héraðsprestar. Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að ráðnir séu prestar á vegum stofnana og félagasamtaka. Biskupi Íslands er heimilt að samþykkja að prestar séu ráðnir til starfa meðal Íslendinga erlendis.